Stjórn Bankasýslu vill hætta

Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur sent fjármálaráðherra bréf þar sem stjórnarmenn óska eftir að verða leystir frá störfum. Utanaðkomandi afskipti af ákvörðun um ráðningu Páls Magnússonar sem forstjóra stofnunarinnar geri að verkum að henni sé ekki lengur sætt.

Í tilkynningu frá stjórn Bankasýslu ríkisins er ítrekað að sú ákvörðun að bjóða Páli starf forstjóra stofnunarinnar hafi verið byggð á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum þar sem eiginleikar og hæfileikar Páls til að sinna starfinu lágu til grundvallar.

Staða forstjóra var auglýst laus til umsóknar 6. ágúst sl. og bárust alls níu umsóknir.  Í tilkynningunni segir að stjórn Bankasýslunnar hafi ásamt ráðgjafa frá Capacent lagt mat á umsóknirnar og hafi verið lagt til grundvallar að ferlið yrði vandað og faglegt. Stuðst hafi verið við viðurkenndar matsaðferðir og mælingar. Allir sem að ferlinu komu  hafi verið sammála um að Páll væri hæfastur umsækjenda.

„Ákvörðun stjórnar Bankasýslu ríkisins um ráðningu Páls í starf forstjóra var tilkynnt 30. september sl. Fljótlega hófst umræða á opinberum vettvangi þar sem ráðningin var gagnrýnd.

Stjórn Bankasýslunnar hefur aldrei litið svo á að ákvarðanir hennar væru hafnar yfir gagnrýni. Í áðurnefndri umræðu hefur hins vegar verið vegið að trúverðugleika Bankasýslunnar og friður rofinn um starfsemi hennar.

Viðbrögð alþingismanna benda til þess að erfitt verði fyrir stofnunina að starfa með eðlilegum hætti að þeim mikilvægu og vandasömu verkefnum sem henni er ætlað að sinna og framundan eru.

Stjórn Bankasýslu ríkisins hefur alla tíð leitast við að framfylgja eigendastefnu ríkisins og starfa í samræmi við lög um Bankasýslu ríkisins. Það er að mati stjórnarinnar grundvallaratriði, eigi hún áfram að geta sinnt hlutverki sínu með trúverðugum hætti, að hún njóti óskoraðs trausts og geti starfað sjálfstætt eins og lög um Bankasýslu ríkisins gera ráð fyrir.

Það er niðurstaða stjórnarinnar að afskipti utanaðkomandi afla geri henni ókleift að starfa áfram á þeim faglega grundvelli sem stjórnin telur nauðsynlegan.
Bankasýsla ríkisins mun á næstu mánuðum þurfa að taka mikilvægar ákvarðanir er snúa að íslensku fjármálakerfi. Miklu skiptir að sæmilegur friður ríki um starfsemi stofnunarinnar og þær ákvarðanir sem hún mun taka," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK