Lufthansa sker niður 3.500 störf

Flugfreyja Lufthansa. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Flugfreyja Lufthansa. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.

Lufthansa, stærsta flugfélag Þýskalands og Evrópu allrar, tilkynnti í dag að fækkað yrði um 3.500 stjórnunarstöður, sem liður í djúptækum niðurskurði félagsins í kjölfar hækkandi eldsneytisverðs og aukinnar samkeppni.

Þetta eru umfangsmestu aðgerðir í sögu flugfélagsins. Stjórnunarstöðum verður fækkað í starfsstöðvum Lufthansa um allan heim en ferlið mun taka nokkur ár. Markmiðið er að draga úr kostnaði á efri stigum um fjórðung.

„Eina leiðin til að tryggja störf til langframa og skapa ný tækifæri er með því að endurskipuleggja kerfið hjá okkur og sætta okkur við að sumir missi vinnuna núna,“ segir í yfirlýsingu frá framkvæmdastjóra Lufthansa, Christoph Franz. 

Samkeppni frá lággjaldaflugfélögum mun hafa gert Lufthansa erfitt fyrir að undanförnu. Í febrúar setti félagið sér markmið um að ná fram 1,5 milljarða evru sparnaði fyrir árið 2014. Þriðjungur af því næst fram með því að fækka starfsmönnum.

Harkalegastur verður niðurskurðurinn í höfuðstöðvunum í Þýskalandi, þar sem fækkað verður um 2.500 stjórnunarstöður. Fyrirtækið segist ætla eftir bestu getu að sýna samfélagslega ábyrgð í uppsögnum.

Flugvélar frá Lufthansa á flugvellinum í Frankfurt.
Flugvélar frá Lufthansa á flugvellinum í Frankfurt. Reuters
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir