Stefán með hærri laun en Orri

Orri Hauksson, forstjóri Símans og Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta.
Orri Hauksson, forstjóri Símans og Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta. Samsett mynd

Orri Hauksson, forstjóri Símans, var með 40,2 milljónir króna í laun á síðasta ári, eða sem jafngildir 3,35 milljónum króna á mánuði. Stefán Sigurðsson, forstjóri Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, var hins vegar með hærri laun, 50 milljónir króna á árinu, sem jafngildir 4,1 milljón króna á mánuði.

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningum fyrirtækjanna.

Þar kemur jafnframt fram að Orri eigi alls 45,7 milljónir hluta í Símanum og nemur heildarandvirði hlutarins miðað við markaðsgengið í dag 158,5 milljónum króna. Markaðsgengið í dag er 3,47 krónur á hlut en hlutina keypti hann á 2,5 krónur á hlut fyrir almenna útboðið. Ef hann myndi selja hlutina í dag nemur hagnaðurinn því 44,5 milljónum króna.

Stefán Sigurðsson á hins vegar 155 þúsund hluti í Fjarskiptum og miðað við markaðsgengi dagsins nemur andvirði hlutarins um 6,8 milljónum króna. 

Í ársreikningi Símans kemur jafnframt fram að aðrir framkvæmdastjórar innan fyrirtækisins, fjórir talsins, fengu samtals greiddar 105 milljónir króna í laun og aðrar launatengdar greiðslur á árinu. Þeir áttu 19 milljónir hluta í félaginu í árslok 2015.

Fjórir framkvæmdastjórar hjá Vodafone voru samtals með 92,2 milljónir króna í árslaun.

Stjórnarformaður Símans fær 10,8 milljónir

Þrátt fyrir að forstjóri Fjarskipta sé með hærri laun en forstjóri Símans er stjórnarformaður síðarnefnda fyrirtækisins tekjuhærri. Sigríður Hrólfsdóttir, stjórnarformaður Símans, var með 10,8 milljónir króna í laun á síðasta ári, eða sem jafngildir 900 þúsund krónum á mánuði. 

Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Fjarskipta, var hins vegar með 6,4 milljóna króna árslaun, eða sem jafngildir um 533 þúsund krónum á mánuði.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir