Ekki fulltrúar ákveðinna hluthafa

Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR.
Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það virðist vera rík tilhneiging hér á landi að líta á kjörna stjórnarmenn í félögum sem fulltrúa ákveðinna hluthafa. Það er mikil hugsanaskekkja, að mati Þórönnu Jónsdóttur, forseta viðskiptafræðideildar Háskólans í Reykjavík.

„Þegar fólk sest í stjórn félags er það að vinna fyrir félagið. Orðið „félag“ snýst um það að við ætlum að gera eitthvað í sameiningu. Við eigum sameiginleg markmið og sameinumst um að koma einhverju til leiðar,“ sagði hún á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs Íslands, Kauphallarinnar og Samtaka atvinnulífsins um samvistir almennra fjárfesta og lífeyrissjóða á hlutabréfamarkaði í morgun.

Helga Hlín Hákonardóttir, ráðgjafi hjá Strategíu, tók undir þetta og sagði að þegar maður settist í stjórn félags gerðist hann fulltrúi allra hluthafa. Hann gerðist starfsmaður félagsins og honum bæri að gæta hagsmuna allra hluthafa. „Þetta er algjört grundvallaratriði,“ sagði hún. Þetta væri raunar lögfest í lögum um hlutafélög.

„Við þurfum að hætta umræðunni hér á landi að tala um eitthvað sem kallast fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum. Það er ekkert slíkt til og ef svo væri að aðili settist í stjórn sem fulltrúi lífeyrissjóðs, þá væri hann einfaldlega að brjóta lög um hlutafélög,“ sagði Helga Hlín.

Þóranna sagði í erindi sínu á fundinum að þar með væri ekki sagt að stjórnarmenn þyrftu að vera sammála um alla skapaða hluti. „Við getum átt í málefnalegum ágreiningi en það er svo mikilvægt að vera sammála um það að stjórnin er ekki vettvangur fyrir hagsmunagæslu. Það fer allt of mikill tími og orka í það á kostnað verðmætasköpunar innan fyrirtækisins,“ nefndi hún.

Stjórnarmenn þyrftu að hugsa um, í sameiningu, hvað væri best fyrir fyrirtækið og framgang þess.

Stjórnarkjör tilviljunarkennt

Þóranna ræddi einnig tilnefningarnefndir, en hlutverk þeirra er að tilnefna frambjóðendur til stjórnarsetu í félagi fyrir aðalfund þess. Viðskiptaráð Íslands, Kauphöllin og Samtök atvinnulífsins hafa mælt fyrir því að fyrirtæki komi á fót slíkum nefndum.

Þóranna sagði það enga tilviljun. „Það er einfaldlega vegna þess að stjórnarkjör og val á stjórnarmönnum hefur verið tilviljunarkennt. Það er hver hluthafi að passa upp á að koma sínum aðila að og þá situr fyrirtækið uppi með stjórn sem er ekki endilega sú besta.“

Við ættum að huga að því hvernig nota mætti tilnefningarnefndir til þess að búa til góðar stjórnir sem skapa virði og skila árangri.

Fréttir mbl.is:

Eina hlutverkið að hámarka arðsemi

Eiga ekki að sitja á hliðarlín­unni

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK