Sigríður ráðin sviðsstjóri hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins

Sigríður Mogensen, nýráðinn sviðsstjóri hugverkssviðs Samtaka iðnaðarins.
Sigríður Mogensen, nýráðinn sviðsstjóri hugverkssviðs Samtaka iðnaðarins. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Mogensen hefur verið ráðin sviðsstjóri hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins. Hún hefur störf á næstu mánuðum.

Sigríður hefur frá árinu 2015 starfað við áhættustýringu hjá Deutsche Bank í London. Fyrir þann tíma starfaði hún sem hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og hagfræðingur á skrifstofu sérstaks saksóknara. Þá hefur Sigríður einnig starfað sem fréttamaður á Stöð 2 og blaðamaður á Viðskiptablaðinu. Um árabil var hún aðstoðarkennari í fjármálum og hagfræði við Háskóla Íslands.

Sigríður er hagfræðingur að mennt með BS-gráðu frá Háskóla Íslands og MS-gráðu í reikningshaldi frá London School of Economics.

„Markmið okkar er að festa hugverkasviðið í sessi sem eina af meginstoðunum í starfi Samtaka iðnaðarins enda mun framtíðarvöxtur að miklu leyti byggjast á hugviti og hagnýtingu þess í iðnaði,“ er haft eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóri SI, í fréttatilkynningu um ráðninguna. 

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir