3,8 milljarða hagnaður á þriðja ársfjórðungi

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Landsbankinn hagnaðist um 15,4 milljarða eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 16,8 milljarða hagnað á sama tíma í fyrra. Hreinar vaxtatekjur voru 29,8 milljarðar og hækkuðu um 10,3% milli ára, en þjónustutekjur voru 5,8 milljarðar og lækkuðu um 12% frá því á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Þegar aðeins er horft á þriðja ársfjórðung nemur hagnaður bankans 3,78 milljörðum, samanborið við 4,2 milljarða á sama tíma í fyrra. Rekstrartekjur á tímabilinu voru samtals 12,1 milljarður, samanborið við 12,4 milljarða í fyrra, og rekstrargjöld voru 5,57 milljarðar samanborið við 5,64 milljarða í fyrra.

Rekstrartekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins voru 41,1 milljarður, en voru á sama tíma í fyrra 41,6 milljarðar. Aðrar rekstrartekjur námu 3,8 milljörðum króna samanborið við 5,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 36% lækkun. Óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum eru helsta skýring lækkunarinnar, að því er segir í tilkynningu frá bankanum.

Rekstrarkostnaður bankans nam á tímabilinu 17,7 milljörðum og stóð í stað frá fyrra ári. Þar af var launakostnaður 10,8 milljarðar og hækkaði hann um 500 milljónir frá því á sama tíma í fyrra. Annar rekstrarkostn­aður lækkaði um 5,5% frá sama tímabili árið 2017 og var 7,0 milljarðar króna.

Útlán hafa aukist um 12,1% frá áramótum og nema nú 112,4 milljörðum. Er bæði um að ræða útlánaaukningu hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Innlán í bankanum jukust einnig og voru 14,5% meiri í lok ársfjórðungsins en um síðustu áramót, eða 87,5 milljarðar.

Í tilkynningunni er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, að bankinn muni áfram vinna að því að auka skilvirkni í rekstri og draga úr kostnaði, en kostnaðarhlutfall bankans á þessu ári er 45%.

Eigið fé Landsbankans var 235,9 milljarðar króna 30. september og eiginfjárhlutfallið var 24,8%. Landsbankinn greiddi þann 19. september sl. 9,5 milljarða króna í sérstaka arðgreiðslu. Á þessu ári hefur bankinn greitt samtals 24,8 milljarða króna í arð en alls nema arðgreiðslur bankans um 131,7 milljörðum króna frá árinu 2013. Um 99,7% af arðgreiðslum ársins renna í ríkissjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK