Uppsagnir hjá WOW air og vélum fækkað

mbl.is/Eggert

WOW air hefur sagt upp 111 fastráðnum starfsmönnum og ná uppsagnirnar þvert á fyrirtækið. Þá verður flugvélum félagsins fækkað úr 20 í 11. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þá verða samningar við verktaka og tímabundna starfsmenn ekki verða endurnýjaðir að svo stöddu. Félagið vonar þó til þess að þeir sem fengu uppsögn í dag fái tækifæir hjá félaginu að nýju. Samkvæmt upplýsingum frá WOW nær uppsögnin til samtals 350 starfsmanna þegar sumarstarfsfólk og verktakar eru taldir með.

„Þetta er erfiðasti dagurinn í sögu WOW air,“ er haft eftir Skúla í tilkynningunni og segir hann sorglegt að neyðast til að fara í þennan niðurskurð. „Ég vildi óska þess að það væri til önnur leið en staðreyndin er sú að við verðum að snúa við rekstrinum og koma honum aftur í gott horf áður en við getum hafið uppbygginguna að nýju.“

Hætta með Airbus A330 breiðþotur

Í tilkynningunni segir að síðastliðið ár hafi reynst WOW air mjög erfitt og að unnið hafi verið að því að snúa rekstrinum við. Stór hluti af endurskipulagningunni felst í því að fækka flugvélum úr tuttugu í ellefu og verða eingöngu flugvélar að gerðinni Airbus A321 og A320 í flota félagsins.

Félagið er í samningaviðræðum um skil á nokkrum flugvélum til leigusala þar með talið öllum Airbus A330 breiðþotum. Verið er að ganga frá samningi þess efnis að selja fjórar Airbus A321 flugvélar sem verða afhentar í janúar 2019 og mun bæta lausafé félagsins um 10 milljónir Bandaríkjadala, segir í tilkynningunni.

Eftir þessar rekstrarbreytingar munu áfram starfa hátt í þúsund manns hjá félaginu.

Hætt við flug til Indlands og Los Angeles

Samkvæmt tilkynningunni verður hætt við flug til Nýju Delí 20. janúar, en flug þangað hófst á dögunum. Þá verður einnig hætt við flug til Los Angeles 14. janúar. Fram kemur að engar breytingar verði á flugáætlun í desember og byrjun janúar.

Í lok síðasta mánaðar var greint frá því að fjárfestingafélagið Indigo partners og WOW air hefðu náð bráðabirgðasamkomulagi um að Indigo fjárfesti í félaginu. Kaupin voru þó gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu á þeim tíma mun Skúli Mogensen, eigandi og stofnandi WOW air, enn eiga meirihluta í félaginu, en samkvæmt íslenskum lögum þarf íslenskt flugfélag að vera í meirihlutaeigu einstaklinga eða félaga innan EES-svæðisins. Indigo er aftur á móti bandarískt félag. Hins vegar hefur verið bent á að Indigo hafi fundið leið fram hjá þessu með ungverska félagið Wizz air og sé í raun meirihlutaeigandi í gegnum eign­ar­hald í breyt­an­leg­um skulda- og hluta­bréf­um. Þar með hafi beinn og óbeinn hlut­ur banda­ríska fjár­fest­inga­fé­lags­ins í Wizz air numið allt að 66 pró­sent­um.

Forsvarsmenn Indigo mættu hingað til lands í byrjun mánaðarins og funduðu með Skúla og öðrum forsvarsmönnum WOW air.

Indigo partners á hlut í fjölda flugfélaga og er þekkt fyrir ofurlággjaldastefnu sína. Sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, að viðskiptamódel þeirra gangi út á að halda launum niðri og lýsti hún áhyggjum af fyrirhugaðri fjárfestingu félagsins í WOW air.

Alls var 237 starfsmönnum Airport Associates á Keflavíkurflugvelli sagt upp um síðustu mánaðamót, en WOW air var stærsti viðskiptavinur félagsins og sagði framkvæmdastjóri félagsins að uppsagnirnar væru gerðar vegna óvissunnar. Hann vonaðist þó til að geta dregið uppsagnirnar til baka.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK