Minnsta hækkun á milli ára frá 2011

mbl.is/Hjörtur

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 6,2% á milli áranna 2017 og 2018 sem er minnsta hækkun sem sést hefur frá árinu 2011 og mikil breyting frá árinu 2016 þegar fasteignaverð hækkaði um 18,9%. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbanka Íslands.

Þannig hafi verð á fjölbýli hækkaði um 5,4% milli 2017 og 2018 og verð á sérbýli hækkaði um 7,9%. „Markaðurinn fór rólega af stað á árinu og við höfðum spáð 4,3% hækkun miðað við stöðuna þá. Verðhækkanir urðu meiri seinni hluta ársins og því er spá okkar töluvert undir raunverulegri hækkun.“

Raunverð íbúðarhúsnæðis hefur verið nokkuð stöðugt á árinu þrátt fyrir verulega minni verðhækkanir á árinu miðað við fyrri ár og raunar skriðið aðeins upp á við. Raunverð íbúðarhúsnæðis hafi aldrei verið hærra en var í nóvember. Raunverð hafi farið hæst í október 2007 fyrir fall bankanna haustið 2008 en síðan lækkað mikið. Það hafi aftur náð sama stigi í apríl 2017 og síðan hafi það hækkað um 8,7%.

„Hækkun fasteignaverðs milli áranna 2017 og 2018 um 6,2% er sú minnsta allt frá árinu 2010 þegar verðið lækkaði um 3,8% milli ára. Árshækkunin síðustu tvo mánuði er sú mesta síðan í mars á þessu ári þannig að þróunin er heldur upp á við. Það hefur orðið mikil breyting á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu á síðustu misserum, en kannski eru merki um að þróunin sé heldur að snúast við. Óvissa eins og nú ríkir í tengslum við kjarasamninga verður oft til þess að fólk kýs að bíða og sjá hvernig mál þróast. Mögulega er raunin að verða sú nú í upphafi ársins 2019.“

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir