103 milljóna kröfu vísað frá dómi

Björn Leifsson í World Class.
Björn Leifsson í World Class. mbl.is/​Hari

Stefnu fyrirtækisins ÞS69 ehf., félags Björns Leifssonar í World Class, þar sem krafist var 103 milljóna króna frá Guðmundi Ágústi Péturssyni, hefur verið vísað frá dómi. Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í dag.

Fyrirtækið ÞS69 höfðaði málið á þeim forsendum að það ætti rétt á endurkröfu frá stefnda, Guðmundi Ágústi, þar sem fyrirtækið hefði sem ábyrgðarmaður greitt kröfu samkvæmt skuldabréfaláni sem Kaupþing hf. veitti árið 2006 að fjárhæð rúmlega 10 milljóna danska króna til félagsins Þreks Holding ehf.

ÞS69, sem þá hét Þrek ehf., átti helmingshlut í fyrirtækinu Þrek Holding en það var stofnað í þeim tilgangi að kaupa danska líkamsræktarfyrirtækið Equinox. Þrek Holding lenti í vandræðum með endurgreiðslu lánsins og var lánstíminn því framlengdur til nóvemberloka 2008.

Í rökstuðningi dómsins segir að telja verði að þegar mál sé höfðað í tengslum við úrlausn svo flókins skuldauppgjörs og raun ber vitni í þessu máli varði miklu að uppgjörinu og einstökum liðum þess sé lýst á skýran og greinargóðan hátt.

Telur dómurinn ekki liggja fyrir með nægilega skýrum hætti í málatilbúnaði ÞS69 hvernig uppgjöri fyrirtækisins á kröfunni, sem endurgreiðslukrafan byggir á, hafi verið háttað. Var málinu því vísað frá og ÞS69 ehf. dæmt til að greiða Guðmundi Ágústi 1,5 milljónir króna í málskostnað. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK