Næstu mánuðir helsta áhyggjuefnið

Á komandi mánuðum spáir Kristófer Oliversson, formaður félags fyrirtækja í …
Á komandi mánuðum spáir Kristófer Oliversson, formaður félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu, allt að 20% samdrætti í eftirspurn eftir gistingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hótel hér á landi búa við lægri bókunarstöðu nú yfir jól og áramót heldur en síðustu ár, en þar kemur meðal annars til samdráttur í flugi miðað við sama tíma í fyrra og að gistirýmum hefur áfram fjölgað, meðal annars á Airbnb. Kristófer Oliversson, formaður FHG - Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri Center hotels, segir í samtali við mbl.is samdráttinn yfir hátíðirnar vera nokkurn, en samt sé þokkalega bókað. Helsta áhyggjuefnið segir hann hins vegar vera næstu fimm mánuði fram á sumar, en þar sé útilitið ekki bjart ef tekið er mið af fyrri hluta þessa árs.

70-80% bókað yfir jól og 90% um áramót

Í kvöldfréttum RÚV var haft eftir Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, að hann teldi að tekjur af ferðamönnum í desember myndu dragast saman um allt að fimm milljarða, eða úr 30 milljörðum í 25 milljarða. Þá væru hótelherbergi víða ónýtt.

Kristófer segir þetta rétt og bendir á að síðustu ár hafi verið uppbókað yfir hátíðirnar hér á landi. Metur hann það svo að hótel á höfuðborgarsvæðinu séu nú með um 70-80% bókunarstöðu yfir jólin og um 90% um áramótin. „Sjálft gamlárskvöld er víðast fullbókað en það er ekki sama pressan og undanfarin ár og meðalverð hafa lækkað talsvert,“ segir hann.

Kristófer Oliversson.
Kristófer Oliversson. Ljósmynd/Aðsend

Allt að 20% samdráttur á næstu mánuðum kæmi ekki á óvart

„Næstu fimm mánuðir fram á sumarið eru áhyggjuefni. Það verður mikill samdráttur þessa mánuði miðað við þetta ár sem er að líða,“ segir Kristófer. Vísar hann til þess að í byrjun síðasta árs hafi WOW air enn verið starfandi og síðan þá hafi flugframboð dregist talsvert saman. Spurður nánar út í hvernig hann meti stöðuna segir Kristófer að miðað við bókunarstöðuna í dag kæmi það honum ekki á óvart að samdrátturinn þessa fyrstu mánuði næsta árs verði á bilinu 10-20%. „Það verður talsverður samdráttur á næstu mánuðum. Það hefur ekkert nýtt komið til, bara dregið úr flugframboði.“

Segir nýjar íbúðir hafa verið byggðar fyrir Airbnb útleigu

Kristófer hefur undanfarin ár ítrekað bent á skuggahagkerfið í ferðaþjónustu sem hann segir spilla mjög samkeppnisstöðu hótela og annarrar skráðrar gistingar. Samkvæmt mælaborði ferðaþjónustunnar hafði framboð eigna á Airbnb aðeins dregist aðeins saman eftir fall WOW Air, en í nóvember jókst það á ný. Segir Kristófer að svo virðist vera sem enn sé að bætast við framboð af eignum til leigu á Airbnb, enda mikið af nýjum eignum að koma inn á markaðinn. Eftir að WOW air hvarf af markaði hafi menn vonað að samdrátturinn yrði í skuggahagkerfinu, en það virðist því miður ekki vera að rætast.

Kristófer telur að mikil uppbygging miðsvæðis í Reykjavík skýrist að nokkru leyti af þeirri trú manna að hægt væri að leigja íbúðirnar til ferðamanna. „Það er búið að byggja svo mikið af íbúðum í miðbænum og margir hafa leynt og ljóst byggt inn á Airbnb markaðinn. Þegar þetta eru kannski 30-40 fermetra íbúðir þá eru menn ansi nálægt því að byggja hótelherbergi,“ segir Kristófer. Hann bendir á að framboð herbergja í heimagistingu sé meira en framboð hótelherbergja, en hjá hótelum séu allir með leyfi og greiði af því eðlileg gjöld og laun til starfsfólks. Því sé samkeppnin á þessum markaði ótrúlega ósanngjörn.

Að lokum gagnrýnir Kristófer að þó rætt hafi verið um aukna markaðssókn á þessum vetri eftir fall WOW air, þá hafi virðist þau áform ekki hafa ræst og á markaðinum sé hart slegist um færri gesti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK