Intellecta ræður fjóra ráðgjafa

Arndís Eva Finnsdóttir.
Arndís Eva Finnsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Intellecta hefur ráðið til starfa fjóra ráðgjafa, þau Hafdísi Ósk Pétursdóttur á svið ráðninga, Guðna B. Guðnason og Þórdísi Pétursdóttur á svið tæknimiðaðrar stefnumótunar og Arndísi Evu Finnsdóttur á svið rannsókna.

Intellecta er sjálfstætt ráðgjafar- og þekkingarfyrirtæki og starfa þar fjórtán reynslumiklir ráðgjafar á fjórum sviðum: ráðgjöf, ráðningum, rannsóknum og fræðslu, að því er segir í tilkynningu.

Hafdís Ósk Pétursdóttir.
Hafdís Ósk Pétursdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hafdís Ósk Pétursdóttir er ráðgjafi í ráðningum og mannauðsráðgjafi. Hún starfaði áður sem ráðgjafi hjá MyTimePlan og hefur reynslu af mannauðsmálum, stjórnun og ráðgjöf. Hafdís hefur einnig umtalsverða reynslu af kennslu en hún starfaði lengi sem sérkennslu- og deildarstjóri í leikskóla. Hafdís Ósk er með B.A. í sálfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc. í mannauðsstjórnun frá sama skóla.

Guðni B. Guðnason.
Guðni B. Guðnason. Ljósmynd/Aðsend

Guðni B. Guðnason mun m.a. taka að sér verkefni við stjórnendaráðgjöf, ráðgjöf um nýtingu upplýsingatækni til að auka skilvirkni, uppbyggingu á sjálfvirkni ferla, úttektir upplýsingakerfa,  ásamt uppbyggingu á stjórnskipulagi og útvistun. Hann hefur margra ára reynslu af upplýsingatækni sem sérfræðingur, ráðgjafi og stjórnandi, en hann starfaði áður m.a. sem stjórnandi hjá Deloitte, Landsbankanum og ANZA. Guðni er með B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og hefur sótt ótal námskeið í stjórnun og beitingu upplýsingatækninnar í hagrænni stjórnun.

Þórdís Pétursdóttir.
Þórdís Pétursdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Þórdís Pétursdóttir vinnur að sjálfvirknivæðingu ferla þar sem hún beitir nýjustu verkfærum til að finna bestu lausnina og forrita hana. Hún starfaði áður sem sjúkraþjálfari í Danmörku og vann sjálfstætt sem verktaki á stofu. Þórdís er með B.Sc. í sjúkraþjálfun frá UCC Nordsjælland og B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

Arndís Eva Finnsdóttir er ráðgjafi á rannsóknarsviði og starfar við þróun og úrvinnslu kjarakönnunar Intellecta. Hún hefur reynslu af framkvæmd og úrvinnslu rannsókna ásamt þróun gagnagreiningar. Þá hefur Arndís starfað sem stundakennari við Sálfræðideild Háskóla Íslands og kennt m.a. tölfræði og persónuleikasálfræði. Arndís er með B.Sc. í sálfræði og M.Sc. í hagnýtri sálfræði, samfélagi og heilsu frá Háskóla Íslands. Þá er hún einnig að ljúka MAS í hagnýtri tölfræði frá Háskóla Íslands.

„Það er ánægjulegt að fá afburðafólk til liðs við Intellecta“ segir Þórður S. Óskarsson, framkvæmdastjóri Intellecta, í tilkynningunni. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK