Einkaneysla dróst saman

Í mælingum gætir umtalsverðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á neyslu íslenskra heimila.
Í mælingum gætir umtalsverðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á neyslu íslenskra heimila. mbl.is/Golli

Áætlað er að landsframleiðsla hafi dregist saman um 5,1% að raungildi á fjórða ársfjórðungi 2020 borið saman við sama tímabil fyrra árs. Yfir árið í heild er áætlað að landsframleiðsla hafi dregist saman um 6,6% að raungildi sem má að miklu leyti rekja til áhrifa kórónuveirufaraldursins, einkum í útfluttri ferðaþjónustu sem dróst saman um 74,4% á árinu. 

Áætlað er að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 3,5% á árinu 2020 borið saman við 8,0% árið 2019, samkvæmt yfirliti á vef Hagstofu.

Samdráttur í landsframleiðslu skýrist að verulegu leyti af neikvæðum áhrifum utanríkisviðskipta en innflutningur dróst saman um 22,0% á árinu á meðan útflutningur dróst töluvert meira saman eða um 30,5%.

Áætlað er að einkaneysla hafi dregist saman um 3,3% að raungildi á árinu 2020 borið saman við fyrra ár. Í mælingum gætir umtalsverðra áhrifa kórónuveirufaraldursins á neyslu íslenskra heimila. Yfir árið í heild er áætlað að útgjöld Íslendinga erlendis hafi dregist saman um 65,2% frá fyrra ári og hafi numið 62,9 milljörðum króna á árinu 2020 borið saman við 161,9 milljarða króna á árinu 2019 á verðlagi hvors árs.

Þrátt fyrir samdrátt í neyslu Íslendinga erlendis og sömuleiðis í ákveðnum útgjaldaflokkum innlendrar neyslu vegur aukning í öðrum að verulegu leyti upp þann samdrátt. Þannig er til að mynda áætlað að einkaneysluútgjöld vegna kaupa á húsgögnum og öðrum heimilisbúnaði hafi aukist að raungildi um 7,6% a árinu 2020 og útgjöld vegna kaupa á áfengi og tóbaki um 10,8%.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK