Seðlabankinn spáir að atvinnuleysi dragist saman

Seðlabankinn spáir því að atvinnuleysi fari undir 4% fyrir lok …
Seðlabankinn spáir því að atvinnuleysi fari undir 4% fyrir lok spátímabils bankans, eða fyrir lok árs 2024. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Störfum hefur fjölgað hratt undanfarið hér á landi og atvinnuleysi nálgast það stig sem var fyrir heimsfaraldurinn. Lausum störfum hefur jafnframt fjölgað mikið og það sama á við um fjölda fyrirtækja sem skortir starfsfólk. Þá er útlit fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að minnka og verði komið undir 4% árið 2024. Þetta kemur fram í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands sem komu út í dag samhliða ákvörðun peningastefnunefndar að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig.

Þar segir að komist atvinnuleysið niður undir 4% verði það áþekkt því stigi sem er talið samræmast jafnvægi á vinnumarkaði. Jafnframt er tekið fram að vísbendingar séu um að slakinn í þjóðarbúinu sé að hverfa hratt og sé jafnvel horfinn.

Seðlabankinn vísar í tölur úr staðgreiðsluskrá skattsins sem benda til þess að í faraldrinum hafi liðlega 18 þúsund störf tapast. Í ágúst á þessu ári höfðu hins vegar 16.700 störf orðið til á ný. Flest þeirra voru í ferðaþjónustunni og segir bankinn að greinin hafi endurheimt um helming starfa sem töpuðust í faraldrinum. Þá séu störf í atvinnugreinum sem að mestu endurspegla opinbera þjónustu orðin tæplega 7.000 fleiri en á árinu 2019.

Mikill fjöldi ráðningarstyrkja sem hið opinbera hefur veitt rennur sitt skeið á fjórða ársfjórðungi. Segir Seðlabankinn að það skapi óvissu um atvinnuleysishorfur til skamms tíma. Óvíst sé að hve miklu leyti ráðningarsamböndum sem byggjast á styrkjum verði viðhaldið, en á móti vega ráðningaráform fyrirtækja og skortur á starfsfólki.

Í Peningamálum er bent á að samkvæmt fyrirtækjakönnun Hagstofunnar hafi ráðningaráform fyrirtækja tekið mikinn kipp á öðrum fjórðungi og reyndust þau áfram kröftug á þeim þriðja. Þannig hafi á þriðja ársfjórðungi verið 8.400 laus störf, en það er um 5.400 fleiri störf en voru laus á sama tíma í fyrra.

Vísar Seðlabankinn jafnframt til þess að íbúum landsins hafi fjölgað um 1,9% á þriðja ársfjórðungi sem er nokkru meiri fjölgun en á öðrum ársfjórðugni. Má þessa hraðari fjölgun að mestu leyti rekja til fjölgunar erlendra ríkisborgara og segir bankinn að útlit sé fyrir að erlendu vinnuafli muni áfram fjölga samhliða bata í þjóðarbúskapnum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK