Metfjöldi íbúða seldist yfir ásettu verði

Nærri 40% þeirra íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem seldust …
Nærri 40% þeirra íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem seldust í október, seldust yfir ásettu verði. mbl.is/Golli

Aldrei hafa jafn margar íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu selst yfir ásettu verði og á jafn skömmum tíma eins og í október síðastliðnum. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem birt var í morgun.

Meðalsölutími íbúða var tæplega 37 dagar

Nærri 40% þeirra íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu sem seldust í október, seldust yfir ásettu verði og var meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu tæplega 37 dagar.

Um leigumarkaðinn segir að á höfuðborgarsvæðinu hafi verið greidd leiga fyrir að meðaltali 193 þúsund krónur í október, 163 þúsund krónur í nágrenni við höfuðborgarsvæðið og 151 þúsund krónur á landsbyggðinni.

Þá kemur einnig fram að breyting á vísitölu leiguverðs á föstu verðlagi hafi lækkað eða staðið í stað í fyrrnefndum landshlutum sem bendi til þess að almennt verðlag hafi hækkað meira en leiguverð.

Hefur óhjákvæmilega leitt til verðhækkana 

Framboð af íbúðarhúsnæði er nú minna en eftirspurn, að því er greint frá í skýrslunni.

„Íbúðum til sölu heldur áfram að fækka, sölutími íbúða er stuttur og hátt hlutfall íbúða selst yfir ásettu verði. Umsvif hafa hins vegar verið að dragast saman en það má einkum rekja til þess að lítið framboð er af íbúðum til sölu. Á höfuðborgarsvæðinu eru nú 626 íbúðir til sölu en þær voru 664 í byrjun nóvember sem gerir nærri 6% samdrátt,“ segir í skýrslunni.

Á sama tíma hefur framboð íbúða í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og annarsstaðar á landsbyggðinni fregist saman um ríflega 12%. Framboð íbúða hefur samtalst minnkað um 68% frá því í maí 2020.

Lítið framboð af húsnæði til sölu og mikil eftirspurn hefur óhjákvæmilega leitt til verðhækkana á íbúðamarkaði.

„Tólf mánaðahækkun íbúða í október mældist 15,7% fyrir íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu en 17,5% fyrir sérbýli. Á landsbyggðinni var hækkunin 9,2% fyrir íbúðir í fjölbýli og 13,9% fyrir sérbýli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK