Nýtt met í heimsendingarþjónustu matvöruverslana

Gríðarlegt álag hefur verið á heimsendingarþjónustu matvöruverslanna.
Gríðarlegt álag hefur verið á heimsendingarþjónustu matvöruverslanna. Ljósmynd/Nettó

Gífurleg aukning hefur verið í eftirspurn á heimsendingarþjónustu matvöruverslana síðustu daga eftir að fréttir bárust af hertum sóttvarnaaðgerðum. Framkvæmdastjórar Krónunnar og Samkaupa segja í samtali við mbl.is að um sé að ræða stærstu daga í sögu heimsendinga verslununum.

„Í gær var stærsti dagur í sögu Snjallverslunar Krónunnar, sem er netverslunin okkar,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, í samtali við mbl.is. Uppbókað er í heimsendingaþjónustu fyrir jól hjá versluninni.

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar. Ljósmynd/Aðsend

Ásta segir að eftir að fréttir af hertari sóttvarnareglum bárust kom holskefla af pöntunum bæði í heimsendingaþjónustu og frá þeim kjósa að sækja pantanir í verslun.

„Eftirspurnin er slík að við höfum ekki undan,“ segir Ásta og nefnir að búið sé að fjölga starfsfólki en þjónustan seljist upp jafnóðum.

Fólk orðið vant a geta fengið þjónustuna

Ásta segir að fjölgun smita og hertar samkomutakmarkanir hafi komið á óvart enda fyrirvarinn skammur. „Það kom okkur aðeins á óvart að eftirspurnin yrði svona gríðarlega mikil en fólk er auðvitað að reyna að nýta tímann og orðið vant að geta fengið þessa þjónustu.“

Hún nefnir að margir láti reyna á heimsendingarþjónustuna enda margir í sóttkví og aðrir veigra sér við því að fara í verslanir.

„Við höfum í ljósi aðstæðna lengt opnunartíma okkar verslana,“ segir Ásta en stærstu verslanir Krónunnar, á Granda, í Lindum, í Flatahrauni og í Mosfellsbæ, eru opnar frá klukkan 9 til 23 í dag og á morgun, Þorláksmessu.

„Það er búið að vera ótrúlega mikið að gera síðustu daga. Íslendingar eru svo dásamlegir, það er alltaf sama sagan, við byrjum eiginlega ekki að versla fyrr en korter í jól. Þetta var magnaður dagur í gær og við erum spennt að sjá hvað gerist á milli jóla og nýárs, í aðdraganda áramótanna.“

Tvöfalt meira en búist var við

„Miðað við þær áætlanir sem við vorum búin að setja fyrir jólin þá erum við að horfa á tvöfalda netverslun miðað við það sem við bjuggumst við,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa um netverslun hjá Nettó.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa. Ljósmynd/Aðsend

Gunnar segir að síðustu tvo daga, eftir að umræðan um hertar samkomutakmarkanir hófst, hafi álagið aukist mikið en fyrirtækið sé þó ýmsu vant eftir fyrstu bylgju kórónuveirunnar.

Þá nefnir hann sérstaklega að þjónustan hafi selst upp eftir að hertar sóttvarnareglur voru kynntar um hádegi í gær. Gunnar segir að strax var brugðist við og ágætlega hafi gengið að fjölga vöktum og starfsfólki.

Gunnar segir að netverslun Nettó muni taka saman pantanir fram á hádegi á aðfangadag sem verði skilað fyrir klukkan 14.

Þorláksmessa virkilega stór dagur

Hann segir að fólk sé aðallega vera að panta jólamatinn, „fólk er að gera stóru innkaupin á netinu og svo mun fólki alltaf vanta eitthvað og skýst þá í búðirnar rétt fyrir jól.“

Gunnar segir að straumurinn í verslanir Nettó hafi verið nokkuð yfirvegaður. „Við erum þó að undirbúa að Þorláksmessa verði virkilega stór dagur,“ segir hann og bætir við að hann búist ekki við að það þurfi að hleypa fólki inn í hollum.

„Við erum þó tilbúin í það ef svo verður,“ segir Gunnar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK