Laun íslenskra bankamanna of há

Arion banki skilaði uppgjöri í síðustu viku.
Arion banki skilaði uppgjöri í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningardeildar Capacent, segir í samtali við Viðskiptapúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, að grunnlaun bankamanna hér á landi séu of há. Þá hafi reglur, sem hamla bönkum að greiða meira en 25% af árslaunum í bónus til starfsmanna, dregið allverulega úr rekstrarsveigjanleika þeirra. 

„Grunnlaun innan bankakerfisins eru fullhá. Það eru gríðarlegar sveiflur í bankarekstri og því mikilvægt að hægt sé að greiða út bónusa þegar við á. Það þarf að veita starfsmönnum umbun og eina leiðin til þess er að hækka launin. Ég hef aldrei séð rökstuðning fyrir því að þessi tala eigi að vera 25% og hún virðist ekki vera í samræmi við undirliggjandi rekstur banka og eðli bankarekstrar,“ segir Snorri og bætir við að hækka verði framangreinda prósentutölu. Þá verði að finna lausn sem allir geta við unað. 

„Þessi tala á að vera hærri og þá er ekki verið að tala um að greiða bónusa eins og gert var fyrir hrun. Það er áhætta að vera með of hátt bónuskerfi, en ekkert bónuskerfi dregur hins vegar úr sveigjanleika og veldur of háum grunnlaunum,“ segir Snorri. 

Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningardeildar Capacent.
Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningardeildar Capacent. mbl/Arnþór Birkisson

Fjártækni geti aukið arðsemi

Í síðustu viku birti Arion banki uppgjör fyrir annan ársfjórðung þessa árs. Hagnaður bankans dróst verulega saman milli fjórðunga og var um milljarði minni en á fyrstu þremur mánuðum ársins. Eigið fé bankans er 195 milljarðar króna og var arðsemi eigin fjár um 4,3% og er á niðurleið frá 5,9% árið áður.

Að sögn Snorra er kostnaður vegna skaðabótagreiðslu Valitors til Sunshine Press Productions, rekstrarfélags Wikileaks, og Data Cell, ein orsök lakari arðsemi. „Það voru óvenjumikil útlánatöp hjá þeim og þeir virðast hafa farið of geyst í útlán til fyrirtækja. Grunnrekstur þeirra er þó að styrkjast og það eru jákvæð teikn á lofti. Það gefur vísbendingu um framhaldið,“ segir Snorri sem telur að með þróun fjártækni og tæknivæðingu innan bankakerfisins verði hægt að ná betri arðsemi á ýmsum sviðum. 

„Ef aukin tæknivæðing heldur áfram að ná fram að ganga mun kostnaður við t.d. einstaklingsþjónustu minnka. Þetta er allt orðið í heimabankanum og er þess utan alltaf að aukast. Þannig er hægt að auka arðsemi á einkabankasviðinu,“ segir Snorri. 

Spurður hvort hugsanlegt sé að Arion banki hafi vanmetið áhættu fyrirtækjaútlána kveður hann já við. „Mér finnst uppgjörið og útlánatöpin bera það með sér. Áhættan er að sjálfsögðu alltaf miklu meiri þar en í t.d. íbúðalánum þar sem lítið tapast yfirleitt,“ segir Snorri. 

Hlusta má á 21. þátt Viðskipta­púls­ins hér að neðan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is
Arionbanki