Hækka mætti launin um 10%

Davíð Þorláksson
Davíð Þorláksson

Mörg þungvæg rök eru fyrir því að stytta grunnskólann úr tíu árum í níu að sögn Davíðs Þorlákssonar, sviðsstjóra samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins. Hann ritstýrði skýrslu um menntamál sem kom út í liðinni viku. Davíð er viðmælandi í Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpi ViðskiptaMoggans, í dag.

Hann bendir á að stytting framhaldsskólans hafi heppnast vel þegar hann var færður úr fjórum árum í þrjú. Nú sé vert að huga að styttingu grunnskólans þannig að nemendur ljúki flestir námi 18 ára í stað 19 ára eins og nú er.

Skýrsla Samtaka atvinnulífsins ber yfirskriftina Menntun og færni við hæfi.
Skýrsla Samtaka atvinnulífsins ber yfirskriftina Menntun og færni við hæfi.

Meðal þess sem breyting af þessu tagi gæti falið í sér væru bætt kjör kennara, að sögn Davíðs.

„Með því að stytta námstímann um eitt ár þá fljótt á litið þá minnkar það þörf fyrir kennara um 10%. Þetta gerist að sjálfsögðu ekki án samtals við kennara og þá sérstaklega gegnum þeirra kjarasamninga.“

Þannig myndi stytting grunnskólans í raun felast í því að fjölga kennsludögum á hverju ári um sautján.

„Það væri þá hægt að hækka launin þeirra t.d. um 10% ofan á aðrar launahækkanir, bara við þessa kerfisbreytingu.“

Hann segir að þótt ekki muni þurfa eins marga kennara til þess að halda slíku skólastarfi uppi myndi það ekki fela í sér uppsagnir við kerfisbreytingu af þessu tagi. Það skýrist fyrst og fremst af tveimur staðreyndum, annars vegar þeirri að hætt er við kennaraskorti á komandi árum vegna lítillar nýliðunar í greininni og einnig vegna þess að kerfisbreyting af þessu tagi tekur meira en áratug.

Bendir Davíð á að nú séu um 762 kennarar á grunnskólastigi sextíu ára og eldri og að þeir muni á komandi árum fara á eftirlaun.

Í skýrslunni sem SA gaf út í liðinni viku og ber yfirskriftina Menntun og færni við hæfi er fjallað um fleiri kosti þess að stytta grunnskólann. Þannig megi með lengra skólaári koma í veg fyrir félagsleg vandamál sem vart verður við hjá hópi ungmenna og ýmsir rekja til þess að sumarfrí eru of löng. Þá hafi kennarar einnig vitnað um að hluti nemenda muni einfaldlega ekki námsefni fyrra skólaárs þegar aftur er sest á skólabekk að hausti. Draga megi úr slíkum áhrifum með því að lengja skólaárið um 17 daga.

Viðskiptapúlsinn má nálgast á helstu hlaðvarpsveitum, m.a. Spotify og hjá Apple. Einnig er hægt að hlusta á þáttinn í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Arionbanki