Gæti haft skelfilegar afleiðingar

Stóra kóralrifið í Belís er næststærsta kóralrif í heimi. Það, ...
Stóra kóralrifið í Belís er næststærsta kóralrif í heimi. Það, líkt og önnur kóralrif, er í hættu vegna loftslagsbreytinga og hlýnun á yfirborði sjávar sem ýtt hafa undir svokallaða kórallableikingu. AFP

Hitabylgjur á hafi úti eru nú tvöfalt algengari en fyrir 35 árum. Þá er líklegt að þær muni verða fimmfalt algengari en nú, haldi núverandi hlýnun jarðarinnar áfram. Við þessu er varað í grein, sem birtist í vísindaritinu Nature í ágústmánuði, þar sem greint var frá nýjum niðurstöðum rannsóknar.

Segir í greininni að hitabylgjur á hafi úti muni verða bæði tíðari, skarpari og lengri, jafnvel þó að markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnuninni undir 2° á Celsíus-kvarða á komandi áratugum myndu nást.

Rannsóknin sem greint var frá í Nature er ein af fáum sem gerð hefur verið á áhrifum hnatthlýnunar á úthöfunum, en vitað er að þegar yfirborð sjávar hlýnar í nokkurn tíma getur aukið hitastig þess náð nokkra metra undir yfirborðið, oft með skelfilegum afleiðingum. Þannig olli tíu vikna hitabylgja undan vesturströnd Ástralíu árið 2011 því að lífríkið á þeim slóðum eyðilagðist, auk þess sem að helstu tegundir af nytjafiskum leituðu á kaldari mið.

Önnur slík hitabylgja, undan ströndum Kaliforníufylkis, gerði yfirborð sjávar um 6° hlýrri á Celsíus-kvarða en vanalegt var. Afleiðing þessa var að eitraðir þörungar blómstruðu og kaffærðu aðrar tegundir. Krabbaveiði lagðist í einhverjum tilfellum af og stærri dýr eins og sæljón, hvalir og sjófuglar drápust í stórum stíl.

Thomas Frolicher, umhverfiseðlisfræðingur við háskólann í Bern og aðalhöfundur greinarinnar í Nature, segir í viðtali við AFP-fréttastofuna að hitabylgjur á hafi úti séu nú þegar mun algengari, langvarandi og skæðari en á undanförnum áratugum. „Þessi þróun verður örari í framtíðinni með frekari hlýnun jarðar,“ segir Frolicher.

Þessir kórallar tilheyra Kóralrifinu mikla sem hefur orðið fyrir mikilli ...
Þessir kórallar tilheyra Kóralrifinu mikla sem hefur orðið fyrir mikilli bleikingu. Slík bleiking verður sífellt algengari með hlýnun jarðar. AFP

Hætta á varanlegum skaða

Kóralrif eru talin alveg sérstaklega viðkvæm fyrir frekari hlýnun sjávar, en þau þekja nú þegar minna en 1% af yfirborði hafsins, á sama tíma og um fjórðungur allra sjávardýrategunda er talinn lifa í rifunum eða í námunda við þau.

Nýlegir hitatoppar í hitabeltinu og heittempraða beltinu, sem sérstaklega öflugur El Niño-stormur hefur magnað upp, hafa ýtt undir stórfellda kóralbleikingu sem hefur haft áhrif á um 75% allra kóralrifa heimsins.

„Áður fyrr gátu rifin oft náð sér á ný eftir bleikingu af þessu tagi,“ segir Frolicher. „En ef tímabilin á milli slíkra bleikinga verða styttri munu kóralrifin ekki lengur geta endurnýjað sig og þá má búast við að skaðinn verði varanlegur.“

Það gæti aftur leitt til stórfelldra breytinga á lífríkinu sjálfu.

Tvær sviðsmyndir

Frolicher vann að rannsókn sinni ásamt kollega sínum Erich Fischer auk Nicholas Gruber við tækniháskólann ETH Zürich. Þeir nýttu sér gögn úr gervitunglum auk reiknilíkana um loftslagsbreytingar til þess að reikna út nýlegar og áætlaðar breytingar á hitabylgjum sjávar.

Í útreikningunum var litið á tvo möguleika um þróun til framtíðar. Annars vegar var gert ráð fyrir að núverandi þróun myndi halda áfram óhikað, en samkvæmt því líkani verður meðalhiti jarðarinnar um 3,5° hærri árið 2100 en fyrir tíma iðnbyltingarinnar.

Hin sviðsmyndin byggðist á markmiðum Parísarsamkomulagsins, þar sem stefnt er að því að halda hlýnuninni undir 2° á Celsíus frá því sem var fyrir tíma iðnbyltingar. Hitastigið er nú að meðaltali um 1° hlýrra en þá.

Samkvæmt útreikningum þeirra mun hitabylgjudögum á hafi úti fjölga úr um 33 nú upp í um 84 ef hlýnunin nær 2°C og 150 ef hitastigið hækkar um 3,5°C. Það svæði sem nú verður fyrir barðinu á slíkum hitabylgjum hefur þegar stækkað þrefalt, og mun verða nífalt stærra ef meðalhitinn eykst um 2° og 21 sinnum stærra ef hann nær 3,5° á Celsíus.

Sjávarhitabylgjur munu einnig endast lengur að meðaltali, eða frá um 25 dögum sem nú er og upp í 55 daga ef markmið Parísarsamkomulagsins nást, en upp í 112 daga ef þau nást ekki.

Höfin líkt og svampur

Sjávarhitabylgjur gætu einnig haft áhrif á getu hafsins til þess að soga í sig gróðurhúsalofttegundir. Höfin hafa til þessa náð að draga í sig meira en 90% af hitanum sem loftslagsbreytingar hafa valdið. Höfin hafa þannig virkað nánast eins og svampur á meðalhitastigið, og án þessara áhrifa væri það nú miklum mun hærra en nú er.

Þegar hefur verið leitt í ljós að hlýnun jarðarinnar hefur hægt á flutningi kolefnis sem örverur á yfirborði sjávar draga í sig niður á hafsbotninn, en þar getur það dvalið í árþúsundir án þess að valda skaða.

Sjávarhitabylgjur hafa ekki áhrif á þennan „kolefnishring“, en þær gætu hins vegar valdið skaða á lífverum í grunnsævi sem einnig geyma kolvetni í sér. „Sá skaði gæti leitt af sér að kolefnið leysist úr læðingi,“ segir Frolicher.

mbl.is
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 21.1.19 274,16 kr/kg
Þorskur, slægður 21.1.19 349,39 kr/kg
Ýsa, óslægð 21.1.19 272,53 kr/kg
Ýsa, slægð 21.1.19 258,73 kr/kg
Ufsi, óslægður 21.1.19 84,16 kr/kg
Ufsi, slægður 21.1.19 125,30 kr/kg
Djúpkarfi 16.1.19 253,00 kr/kg
Gullkarfi 21.1.19 258,20 kr/kg
Litli karfi 24.10.18 17,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 20.1.19 210,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

21.1.19 Hilmir ST-001 Landbeitt lína
Þorskur 2.428 kg
Ýsa 1.518 kg
Samtals 3.946 kg
21.1.19 Hafrún Ís54 ÍS-054 Lína
Þorskur 2.640 kg
Ýsa 364 kg
Steinbítur 207 kg
Langa 70 kg
Keila 5 kg
Karfi / Gullkarfi 3 kg
Samtals 3.289 kg
21.1.19 Sólrún EA-151 Lína
Þorskur 2.906 kg
Ýsa 2.384 kg
Karfi / Gullkarfi 194 kg
Hlýri 55 kg
Keila 15 kg
Langa 11 kg
Grálúða / Svarta spraka 3 kg
Ufsi 3 kg
Samtals 5.571 kg

Skoða allar landanir »