Verkefni Slysavarnaskólans aldrei lokið

Hinn 29. maí varð Slysavarnaskóli sjómanna 35 ára og er …
Hinn 29. maí varð Slysavarnaskóli sjómanna 35 ára og er ekki hægt að segja annað en gríðarleg framför hafi orðið í öryggismálum sjómanna frá þeim tíma. Erfitt var að ná til sjómanna í upphafi að sögn skólastjórans Hilmars Snorrasonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hinn 29. maí varð Slysavarnaskóli sjómanna 35 ára og er ekki hægt að segja annað en gríðarleg framför hafi orðið í öryggismálum sjómanna frá þeim tíma.

„Það verður nú að segjast eins og er að það að hafa náð þeim árangri 2008, að ekki urðu nein banaslys á sjó, er gríðarlegur árangur. Síðan var þetta endurtekið 2011, 2014, 2017, 2018 og 2019. Það er ekki hægt að segja annað en sjómenn hafi sannarlega tekið öryggismálin föstum tökum þegar maður horfir til þess, þeir fá auðvitað þekkingu hjá okkur en verða að vinna úr því, og það er þá árangur sem við sjáum hjá sjómönnum,“ segir Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna. Hann hefur gegnt starfinu í 29 ár en var skipstjóri á flutningaskipi þar áður.

„Það er auðvitað margt sem kemur til. Menn eru að fá nýrri skip og þá er björgunarhlutinn líka öflugur, björgunarskip, varðskip og þyrlur. Þannig að viðbragðið er fljótara ef menn lenda í vandræðum. Veðurfréttir betri, þannig að menn eru kannski ekki að leggja út í tvísýn veður. Þeir vita hverju þeir mega búast við. Svo má ekki gleyma því að tryggingafélögin hafa einnig lagt áherslu á aukið öryggi hjá sínum viðskiptavinum og ekki síður hjá útgerðum en öðrum. Það er margt sem hjálpast að, en árangurinn hefur sannarlega skilað sér,“ útskýrir hann.

Ljósmynd/Slysavarnaskóli sjómanna

Rætt um feimnismál

„Það var ákveðið að 29. maí yrði stofndagur skólans þó svo hann hafi byrjað nokkrum dögum fyrr. Sjálfur myndi ég segja að hann hefði byrjað 26. maí, en það er bara af því að ég á afmæli þann dag,“ segir Hilmar og hlær. „Á þessum degi hafði verið kynningarnámskeið í Grindavík og daginn áður höfðu þeir [fulltrúar Slysavarnaskólans] verið um borð í skipi sem ég var stýrimaður á. Þeir komu um borð til okkar til þess að sjá hvernig viðbrögðin voru hjá okkur og ég var með áhöfn sem ég var mikið búinn að vera að þjálfa, þannig að ég var rosalega montinn af því að þeir skyldu byrja á að koma um borð í skip sem ég var stýrimaður á. Við stóðum okkur virkilega vel, segi ég.

Þetta byrjar '85 og þá voru námskeiðin styttri og lögð áhersla á að menn væru að gera hluti sem þeir höfðu aldrei gert áður, sem var að taka fram björgunar- og öryggisbúnað skipa sinna. Þetta var feimnismál. Umræður um öryggismálin urðu aldrei miklar um borð í skipunum, því þá fengu menn gjarnan á sig að þeir væru sjóhræddir og spurt hvort þeir gætu ekki komið sér eitthvað annað. Með tilkomu Slysavarnaskólans er byrjað að reyna að fá menn til þess að tala um hluti og draga þá fram, vera óhræddir við að kíkja á búnaðinn. Hægt og bítandi fara menn að sjá að þeir kunna ekki til verka eins og þeir vildu meina,“ svarar Hilmar spurður hvernig það var þegar skólinn hóf starfsemi sína.

Öryggismál sjómanna þóttu lengi feimnismál, en nú er viðurkennt að …
Öryggismál sjómanna þóttu lengi feimnismál, en nú er viðurkennt að skjót og rétt viðbrögð geta skipt verulegu máli. Ljósmynd/Slysavarnaskóli sjómanna

Hilmar segir að í upphafi hafi skólinn þurft að berjast fyrir tilveru sinni þar sem sjómenn voru á þeim tíma ekki sérlega meðtækilegir og erfitt að fá þá til að sækja námskeið. Þá hafi verið mikill styrkur að Slysavarnafélagið hafi staðið þétt að baki skólanum. „Það voru kvennadeildar félagsins í þessum sjávarplássum, eiginkonur sjómannanna, sem sögðu bara: Þið farið á námskeið. Þannig fer þetta hægt og bítandi að koma skrið á að menn mæti á námskeið,“ útskýrir hann.

Námskeiðin voru styttri í byrjun, að sögn skólastjórans sem bendir á að námskeiðsdögum hafði fjölgað í fjóra þegar hann hóf störf við skólann 1991. „Menn voru að vakna til lífsins um að þetta væri eitthvað sem við þyrftum að beina athygli okkar að.“

Keyptu varðskip fyrir þúsund krónur

„Skólinn byrjar fyrst í húsnæði Slysavarnafélagsins og var síðan færður í varðskipið Þór, við keyptum hann fyrir þúsundkall '86. Skipið var keypt af skólanum og hefur skólinn starfað um borð í því allar götur síðan. Árið 1998, þegar Hvalfjarðargöngin voru opnuð, fengum við Akraborgina gefins af ríkinu og breyttum henni í skóla og höfum verið þar síðan. Skipið hefur nú borið nafnið Sæbjörg lengur en það hét Akraborg, sem segir hversu vel þetta skip hefur þjónað, ekki bara sem ferja heldur ekki síður sem skólaskip – gríðarlegur fjöldi sjómanna hefur farið hér í gegn.“

Sæbjörg er komin til ára sinna og eru bundnar vonir …
Sæbjörg er komin til ára sinna og eru bundnar vonir við að hægt verði að endurnýja skipakost skólans. Ljósmynd/Slysavarnaskóli sjómanna

Spurður hvort miklar breytingar hafi orðið á námsefni skólans á þessum 35 árum frá stofnun segir hann svo vera. „Það eru auðvitað ákveðnar breytingar sem verða á öllum námskeiðum, það verður breyting í búnaði, menn eru komnir á nýrri skip og allt önnur tækni notuð. En það má segja að upp úr '91 eða um '92 fórum við að leggja áherslu á forvarnir og það hefur alltaf verið mikilvægur þáttur í öryggismálum sjómanna að sinna forvörnum; að menn leggi af mörkum vinnu um borð í skipunum til þess að koma í veg fyrir slys eða óhöpp og koma heilir heim.

Við höfum unnið að þessu með tryggingafélögunum með mjög góðum árangri, þar sem við höfum heimsótt skip og útgerðir. Þar leggjum við áherslu á að gert sé áhættumat og atvikaskráningu sé viðhaldið þannig að við vitum raunverulega hvað er að gerast um borð í skipunum.

Stjórnvöld mikilvæg

Það var auðvitað stórt skref sem stjórnvöld tóku þegar þau ákváðu að lögfesta öryggisfræðslu áhafna íslenskra skipa,“ segir Hilmar, en lögfestingin tók nokkurn tíma. Í lögum um Slysavarnaskóla sjómanna, sem samþykkt voru á Alþingi 1991, var kveðið á um í bráðabirgðaákvæði að ráðherra yrði falið að leita leiða til að skylda sjómenn í öryggisfræðslu. Frumvarp þess efnis var lagt fyrir Alþingi 1992 en fékk ekki afgreiðslu og var lagt fram á ný 1993, en var loks samþykkt 1994.

Var talið að lagasetningin kynni að vera nokkuð íþyngjandi þar sem heilli stétt myndi allt í einu vera óheimilt að starfa án þess að hafa sótt umrædda fræðslu og því gefinn aðlögunarfrestur fyrir skipstjórnarmenn til 31. desember 1995 og til 31. desember 1996 fyrir aðra skipverja. Ekki nóg með það heldur bendir Hilmar á að efnið hafi verið umdeilt og send inn kvörtun til umborðsmanns Alþingis vegna málsins. Alþingi tók síðan ákvörðun 1995 um að framlengja frestinn til ársloka 1996, en það ár var ákveðið að framlengja frestinn á ný. Þá til ársloka 1997.

Gríðarlegur fjöldi hefur sótt námskeið slysavarnaskóland frá því að hann …
Gríðarlegur fjöldi hefur sótt námskeið slysavarnaskóland frá því að hann var stofnaður fyrir 35 árum. Ljósmynd/Slysavarnaskóli sjómanna

„Það tók nokkur ár að komast yfir þann hjall, það voru auðvitað margir sjómenn, fleiri en í dag. Og það var mál að koma þeim öllum í gegn,“ segir Hilmar. „Þetta viðhorf; ég kann þetta allt, var dálítið ríkjandi. Ég man alltaf eftir því að það kom einn alveg draugfúll inn á námskeið og ég hugsaði með mér að það yrði gaman að heyra í honum eftir námskeiðið hvernig honum fyndist. Hann sat svona fýldur allt námskeiðið og svo í lokin stóð hann upp og vildi fá að tjá sig. Ég leyfði honum það og þá sagði hann: Ég er búinn að sjá í hvaða villuvef ég hef verið, því ég hef alltaf sagt að ég hafi ekkert að læra en ég vissi lítið sem ekki neitt,“ rifjar hann upp. „Þetta hefur alltaf verið í mínum huga einn af þessum eftirminnilegu vendipunktum fyrir þessa menn sem þráuðust við og sáu loks ljósið sem lýsti fyrir þá veginn fram á við.“

Hann telur stjórnvöld hafa gegnt mikilvægu hlutverki í að tryggja öryggisfræðslu fyrir sjómenn þar sem þau hafa með lögum og reglugerðum fest hana í sessi. Jafnframt bendir hann á þann feng að Slysavarnafélaginu hafi verið gefin tvö skólaskip. „Þetta er framlag til öryggisfræðslu og við fáum styrk frá ríkinu sem er niðurgreiðsla svo að námskeiðin geta verið ódýrari fyrir sjómenn. Stjórnvöld eiga því mjög mikinn þátt í að efla öryggi sjómanna.

Síðan tóku stjórnvöld þau skref að setja á endurmenntunarkröfu í öryggisfræðslu fyrir sjómenn og 2003 tók hún gildi. Þá voru engar aðrar þjóðir komnar svo langt. Við vorum á undan öðrum þjóðum að gera kröfu um endurmenntun á fimm ára fresti. Það tók smá tíma að koma mönnum í þá rútínu en nú rúllar þetta í gegn. Menn koma hérna á fimm ára fresti og engin undantekning á því.“ Hann segir samt að einhverjir kunni að vera á sjó nokkra daga umfram útgefinn frest vegna aðstæðna en lögskráningarkerfi sem starfrækt er komi í veg fyrir að hægt sé að vera á sjó til að komast hjá námskeiðum.

Þrýstingur í samfélaginu

Spurður hvort þessi þrjóska og feimni við öryggismálin sé horfin svarar Hilmar því játandi. „Maður heyrir ekkert lengur neitt svoleiðis. Það sem meira er sé ég að þegar birtar eru myndir á þessum samfélagsmiðlum, eins og Facebook og Twitter, af einhverjum sem er að gera eitthvað sem er ekki alveg í lagi hvað varðar öryggið eru menn alveg strax farnir að benda á það. Þetta segir mér að menn eru miklu meira vakandi yfir þessu. Hér áður fyrr sá ég stundum á samfélagsmiðlum spurt: Hvað haldið þið að Hilmar segi við þessu?“ segir hann og skellir upp úr.

Það dugar ekki að búnaðurinn sé til staðar, það þarf …
Það dugar ekki að búnaðurinn sé til staðar, það þarf að kunna á hann. Ljósmynd/Slysavarnaskóli sjómanna

„Maður var orðinn hálfgerð grýla, en núna spyrja menn hvers vegna viðkomandi er ekki með hjálm, af hverju ekki í skóm, af hverju ekki svona eða hinsegin. Ef það er ekki í lagi með öryggismálin á einhverri mynd fá þeir athugasemdir, það er þessi hugarfarsbreyting sem hefur orðið og sannarlega aukið öryggi hjá okkar mönnum.“

Enn mörg slys

Þrátt fyrir að dauðsföllum á sjó hafi fækkað gífurlega á undanförnum árum verður talsverður fjöldi skráðra slysa á hverju ári. „Eitt er skráð slys og hitt hverjar afleiðingarnar eru. Við höfum alltaf hvatt til þess að menn tilkynni óhöpp og slys sem þeir verða fyrir vegna þess að af því drögum við ákveðinn lærdóm. Við lærum forvarnir af því hverju aðrir hafa hafa lent í. Það er ekki þar með sagt að öll þessi slys á sjó séu bótaskyld eða alvarleg. Auðvitað er hvert einasta skys alvarlegt, það er ekki spurning. En ég hef verið í rannsóknanefnd samgönguslysa frá árinu 1995 og þar hef ég séð alveg gríðarlega breytingu á eðli slysanna og afleiðingum þeirra. Hér áður fyrr sáum við miklu meira af því að sjómenn yrðu öryrkjar í kjölfar slysa, menn misstu limi og þess háttar. Þetta sér maður varla í dag.

Hins vegar höfum við tekið eftir því að það sem hefur verið að gerast og aukist dálítið hjá okkur í rannsóknum á sjóslysum er að menn sigla á land af því að þeir sofna. Þeir eru orðnir þreyttir og halda sér ekki vakandi og enda uppi í fjöru, sem er háalvarlegt mál.“

Hann er spurður hvað sé til ráða í þessum efnum, enda sé það ljóst að ekki er fýsilegt að ná hvíld á sjó. „Fólk þarf sannarlega að huga að því þegar lagt er á sjóinn að það gengur ekki að hafa verið vakandi í 10 til 15 tíma og skella sér svo á sjóinn í aðra 14. Ef það er bara einn maður á, þá er ekkert til skiptanna að fara að sofa eða hvíla sig. Það þarf alltaf að vera einhver sem fylgist með siglingu skipsins,“ segir Hilmar og bendir á að þótt það séu tveir eða fleiri um borð verði allir sem koma að siglingu skips að hafa tilskilin réttindi og því takmarkast möguleiki til þess að skiptast á til að ná hvíld á meðan siglt er. „Þá eru 14 tímarnir nokkuð langur tími. Þú mátt hvorki fljúga flugvél né keyra vörubíl í þennan tíma einn. Þetta er langur tími án hvíldar.“

Í desember síðastliðnum var samþykkt á Alþingi frumvarp um að minnka mönnunarkröfur um borð í bátum sem voru yfir 12,5 metrar og voru mörk mönnunarkröfunnar færð upp í 15 metra. Spurður hvort hann telji þessa þróun til þess fallna að draga úr öryggi líkt og sumir hafa haldið fram svarar Hilmar: „Ég ætla bara að benda á að við erum að fá báta upp á land vegna þess að menn eru sofandi við stjórnvölinn. Ef menn ætla að fækka um borð í skipunum meira en orðið er mun það ástand ekki lagast. Við verðum alltaf að hugsa málið út frá öryggissjónarmiðum og öryggissjónarmiðið hlýtur að vera að menn séu vakandi um borð í skipunum á meðan þeim er siglt. Ef við ætlum að standa vörð um vinnu- og hvíldartímaákvæði sem eru í gildi getum við ekki gert það nema lög og reglur styðji það. Þess vegna þurfum við að huga að því hversu langt við ætlum að fara í því að fækka mönnum um borð, bæði réttindamönnum og öðrum skipverjum.“

Ekki hættur

Hilmar segir öryggismálin aldrei átaksverkefni þar sem um er að ræða viðvarandi verkefni. „Átaksverkefnum lýkur þegar ákveðnum áfanga er náð en okkar áfanga hjá Slysavarnaskólanum lýkur aldrei. Eins og ég segi þá hef ég aldrei útskrifað nemanda í þessi 29 ár sem ég er búinn að vera hér, því það er ekki hægt að útskrifast úr öryggismálum. Við verðum alltaf að vera að. [...] Við megum ekki gleyma okkur í unnum sigrum. Þótt við höfum náð góðum árangri í banaslysum á sjó megum við ekki hvika frá því að halda uppi öflugu starfi. Það þarf svo lítið til að breyting verði á.“

Eldur um borð í skipi er eitt af því hættulegasta …
Eldur um borð í skipi er eitt af því hættulegasta sem getur gerst á sjó og er nú unnið að því að koma upp nýju æfingasvæði. Ljósmynd/Slysavarnaskóli sjómanna

Það eru spennandi tímar um þessar mundir hjá skólanum, að sögn skólastjórans. „Við erum að vinna með slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að því að koma upp nýju æfingasvæði til slökkvistarfa fyrir sjómenn og slökkviliðið. Þar erum við að fara í umhverfisvænan æfingabúnað, byggja æfingahús og nota gas til íkveikju. Þetta er gríðarstórt verkefni.“ Auk þess er unnið að því að koma upp hermi eða samlíki sem á að nota til að þjálfunar í siglingu báta og björgunarfara við mismunandi aðstæður, en herminn fær skólinn að gjöf í gegnum Tækniskólann. Hilmar kveðst binda miklar vonir við tækið sem hann segir geta skilað mikilli þekkingu til þeirra sem munu nota það.

Þá segir hann það draum að fá nýtt skólaskip. „Það er nú ferja sem er að losna fljótlega sem heitir Herjólfur, hann gæti hentað vel fyrir okkar starfsemi í stað Sæbjargar, sem var smíðuð 1974. Hún er orðin nokkuð gömul.“

Spurður hvort það sé þrjóska eða ástríða sem hafi haldið honum í starfi við skólann í 29 ár svarar Hilmar að það sé tvímælalaust ástríða. „Fyrir mér er þetta lífsstíll og ég hlakka til hvers einasta dags sem ég mæti í vinnuna. Auðvitað verð ég ekki endalaust í starfi, það er alveg ljóst, en þetta er svo gefandi starf. Þess vegna er ég ekki hættur,“ segir hann og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 26.1.23 506,46 kr/kg
Þorskur, slægður 27.1.23 537,35 kr/kg
Ýsa, óslægð 26.1.23 471,71 kr/kg
Ýsa, slægð 27.1.23 369,34 kr/kg
Ufsi, óslægður 26.1.23 329,65 kr/kg
Ufsi, slægður 27.1.23 336,22 kr/kg
Djúpkarfi 23.1.23 317,00 kr/kg
Gullkarfi 27.1.23 324,75 kr/kg
Litli karfi 27.1.23 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.1.23 0,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.1.23 Breki VE-61 Botnvarpa
Lýsa 7.865 kg
Langa 1.265 kg
Stórkjafta öfugkjafta 432 kg
Keila 356 kg
Steinbítur 264 kg
Blálanga 208 kg
Skötuselur 132 kg
Grálúða 102 kg
Lúða 47 kg
Langlúra 38 kg
Þykkvalúra sólkoli 27 kg
Samtals 10.736 kg
27.1.23 Steinunn SF-010 Botnvarpa
Þorskur 32.328 kg
Ufsi 19.303 kg
Ýsa 2.361 kg
Samtals 53.992 kg
27.1.23 Drangavík VE-080 Botnvarpa
Langa 695 kg
Steinbítur 676 kg
Samtals 1.371 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 26.1.23 506,46 kr/kg
Þorskur, slægður 27.1.23 537,35 kr/kg
Ýsa, óslægð 26.1.23 471,71 kr/kg
Ýsa, slægð 27.1.23 369,34 kr/kg
Ufsi, óslægður 26.1.23 329,65 kr/kg
Ufsi, slægður 27.1.23 336,22 kr/kg
Djúpkarfi 23.1.23 317,00 kr/kg
Gullkarfi 27.1.23 324,75 kr/kg
Litli karfi 27.1.23 0,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.1.23 0,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

27.1.23 Breki VE-61 Botnvarpa
Lýsa 7.865 kg
Langa 1.265 kg
Stórkjafta öfugkjafta 432 kg
Keila 356 kg
Steinbítur 264 kg
Blálanga 208 kg
Skötuselur 132 kg
Grálúða 102 kg
Lúða 47 kg
Langlúra 38 kg
Þykkvalúra sólkoli 27 kg
Samtals 10.736 kg
27.1.23 Steinunn SF-010 Botnvarpa
Þorskur 32.328 kg
Ufsi 19.303 kg
Ýsa 2.361 kg
Samtals 53.992 kg
27.1.23 Drangavík VE-080 Botnvarpa
Langa 695 kg
Steinbítur 676 kg
Samtals 1.371 kg

Skoða allar landanir »