Vill sjá betri samstöðu innan sjómannastéttarinnar

„Það var oft tekist hart á hér áður fyrr en …
„Það var oft tekist hart á hér áður fyrr en aðilar lögðu sig fram um að ræða málin og leita ásættanlegra lausna þótt á stundum þyrfti marga fundi til,“ segir Árni Bjarnason og þykir samskipti útgerðarfélaga og sjómanna hafa versnað til muna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Árni Bjarnason segir sárin ekki að fullu gróin eftir síðustu kjarasamningsviðræður en óskandi væri að stéttarfélög sjómanna gætu snúið bökum saman.

Töluverð harka hefur einkennt kjaraviðræður sjómanna undanfarin ár. Eins og lesendur muna tókust síðast samningar milli SFS og sjómanna í febrúar 2017 eftir langt verkfall en samningar höfðu þá verið lausir frá árinu 2011 sem er Íslandsmet að sögn viðmælanda. Verkfallssamningarnir giltu til 1. desember 2019 og hafa því verið lausir í rösklega tólf mánuði.

Árni Bjarnason er formaður Félags skipstjórnarmanna og segir það umhugsunarvert hversu treglega virðist ganga að semja við fulltrúa sjávarútvegsins og byggja upp breiða samstöðu á milli sjómanna. Að hans sögn voru ýmsar ástæður fyrir því að samningar voru svo lengi lausir á sínum tíma en sú sem vó þyngst var að um margra ára skeið var mikið góðæri í sjávarútvegi og afkoma almennt mjög góð.

„Enginn er betur til þess fallinn en skipstjórinn að meta …
„Enginn er betur til þess fallinn en skipstjórinn að meta og ákveða fjölda í áhöfn með tilliti til allra þeirra þátta sem horfa þarf til,“ segir Árni mbl.is/Árni Sæberg

„Það var ekki fyrr en krónan styrktist mikið, með tilheyrandi tekjurýrnun fyrir sjómenn og útgerðir, að einhver hreyfing komst á hlutina. Stærsta ástæðan fyrir verkfallinu og framgangi þess þegar að því kom var ósætti og sundrung sem hafði náð að magnast upp milli stéttarfélaga sjómanna. Þetta ósætti leiddi til verulega flókinnar stöðu innbyrðis og samningsstaða útgerðarmanna styrktist en staða sjómanna veiktist.“

Snubbóttir tölvupóstar

Árni segir að sér þyki miður að allar götur frá þessum tíma virðist að útgerðir og SFS fyrir þeirra hönd hafi verið að herða tökin. „Samskiptin á milli samtaka útgerða og stéttarfélaga sjómanna eru orðin með allt öðrum hætti en þau voru áður fyrr,“ segir hann.

„Það var oft tekist hart á hér áður fyrr en aðilar lögðu sig fram um að ræða málin og leita ásættanlegra lausna þótt á stundum þyrfti marga fundi til, s.s. 2004 þegar þeir voru á sjöunda tuginn. Í dag birtist samskiptamátinn sem snubbótt skilaboð í tölvupósti frá SFS. Svo dæmi sé tekið kom nýverið frá þeim einhliða yfirlýsing þar sem þeir felldu niður ákvæði í bókun síðasta kjarasamnings. Þar var kveðið á um að skiptaprósenta til sjómanna til útreiknings launa yrði hálfu prósentustigi hærri þar til umræðum um bókanir væri lokið. Umræðum um bókanir er fjarri því lokið en þrátt fyrir þá staðreynd lækkuðu þeir skiptaprósentuna. Það mál er nú fyrir Félagsdómi sem er sannarlega ekki réttur vettvangur þegar um kjarasamningsviðræður er að ræða.“

Myndi Árni vilja sjá betri samstöðu innan sjómannastéttarinnar og betra viðmót hjá fulltrúum útgerðanna. „Það hljóta allir aðilar að vilja ef árangur á að nást. Annað væri í hæsta máta óeðlilegt en til þess að úr rætist þarf ansi margt að breytast. Útgerðarmenn af gamla skólanum sem litu á starfsfólk sitt nánast sem hluta af fjölskyldunni eru vandfundnir í dag,“ segir hann og bendir á að sundrungin á meðal sjómannasamtakanna sé alvarlegt vandamál.

„Undarlegt er til þess að hugsa að á stóru uppsjávarskipi með átta-níu manna áhöfn séu kannski engir tveir í sama stéttarfélaginu, og hvert og eitt stéttarfélag með ólíkar kröfur og áherslur. Flækjustigið er því dálítið svakalegt.“

„Heilu hnífasettin“ í bakið

En hvað má til bragðs taka til að koma málum í betri farveg, fá stéttarfélög sjómanna til að snúa bökum saman og leyfa talsmönnnum útgerðanna og sjómanna að kveikja í friðarpípunni? Árni segir sárin ekki enn að fullu gróin frá kjarasamningaviðræðunum fyrir fjórum árum. „Þar tókst að ná samningum fyrir hönd bæði Sjómannasambandsins og Félags skipstjórnarmanna og var samningurinn samþykktur af skipstjórnarmönnum en kolfelldur hjá undirmönnunum. Í því sem á eftir kom upplifðu ákveðnir aðilar þetta eins og að fá heilu hnífasettin í bakið, og má segja að brennt barn forðist eldinn.“

Bergey VE 144.
Bergey VE 144. Ljósmynd/Egill Guðni Guðnason

Óttast Árni að það sé mjög langt í land. „Til þess að eitthvað gerist verðum við sjómannamegin að gera alvarlega tilraun til þess, sem heild, að koma okkur saman um sameiginlegar áherslur. Kröfugerð sem allir staðfesti með undirskrift sinni að standa eða falla með og bindist fastmælum um að enginn hoppi af vagninum í miðri á. Þetta er mikil áskorun og ærið verkefni sem ég tel að við verðum að láta reyna á áður en hefja skal viðræður við SFS.“

Árni segir meginkröfurnar ekki óeðlilegar og nefnir sem dæmi að skipstjórnarmenn vilji njóta sömu orlofs- og lífeyrisréttinda og aðrar stéttir fengu með lífskjarasamningnum svokallaða. Einnig þurfi að finna farsæla lausn á ýmsum annmörkum skiptimannakerfa, s.s. hvernig eigi að túlka og afgreiða veikindalaun.

Þá brennur á sjómönnum að skoða þau vinnubrögð og viðmið sem stýra verðmyndun á afla en finna má dæmi um að það verð sem notað er við útreikning á launum sjómanna sé ekki í samræmi við markaðsverð aflans.

„Fjölmiðlar fjölluðu nýverið um tilvik þar sem útgerð ákvað að lækka um 35% það verð sem notað var til að reikna út laun rækjusjómanna. Mikil vinna var lögð í málið og niðurstaðan að okkar mati að engar forsendur væru fyrir þeirri kjarskerðingu sem ákveðin var af fulltrúum útgerðar í úrskurðarnefnd með fulltingi formanns nefndarinnar. Í framhaldi af þessu máli kom nú nýverið fram á heimasíðu Verðlagsstofu skiptaverðs úttekt þar sem gerður er verðsamanburður á síld á Íslandi og í Noregi. Þar kemur fram gríðarlegur munur á verði upp úr sjó á meðan gott samræmi var á afurðaverði beggja landa. Ótrúlegt er að sjá hversu litla umfjöllun og athygli þessi úttekt hefur vakið,“ segir Árni.

Vald og ábyrgð skipstjóra

„Hvar varðar skipstjórnarmenn sem ég hef starfað fyrir í áratugi þá finnst mér dapurlegt að upplifa þá þversögn sem við blasir hvað varðar ákvæði sjómannalaga um valdsvið skipstjóra, en 49. greinin er svohljóðandi: „Skipstjóri hefur í öllum efnum æðsta vald á skipinu.“ Raunin er einfaldlega sú að allar stærri ákvarðanir sem taka þarf úti á sjó eru gerðar í fullu samráði við útgerðina sem hefur úrslitavald, hvað sem lögin segja. Mín upplifun af samskiptum við útgerðarmenn og skipstjórnarmenn er sú að útgerðin ræður því sem hún vill ráða og hefur verið að færa sig upp á skaftið á því sviði undanfarin ár,“ segir Árni.

Hann segir mikla endurnýjun á skipum hafa átt sér stað undanfarin ár og uppsjávarflotinn skeri sig úr með afgerandi hætti vegna þess eðlismunar sem felst í að veiða mikið magn fisks sem dælt er um borð og kældur á skömmum tíma.

Venus NS er eitt nýrra uppsjávarskipa landsins og var það …
Venus NS er eitt nýrra uppsjávarskipa landsins og var það smíðað fyrir Brim hf. árið 2015. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Nútímavæðing uppsjávarflotans býður upp á mun meiri hagræðingarmöguleika en eru til staðar í öðrum veiðigreinum. Sem dæmi má nefna að það eru ekki svo ýkja mörg ár síðan hefði mátt sjá sex uppsjávarskip þess tíma í höfn til löndunar og hvert þeirra með 500 tonna afla og 12-14 manna áhöfn – þar sem allir þessir 60-70 sjómenn höfðu það gott. Í dag kemur eitt skip til löndunar með 3.000 tonn með átta eða níu manna áhöfn,“ útskýrir Árni.

„Þótt miklar framfarir hafi átt sér stað hvað varðar bolfiskveiðar þá verður hagræðingu ekki við komið með jafn afgerandi hætti á skipum þar sem handfjatla þarf sérhvern fisk. Af þessu leiðir að enginn er betur til þess fallinn en skipstjórinn að meta og ákveða fjölda í áhöfn með tilliti til allra þeirra þátta sem horfa þarf til, s.s. álags, afkasta, gæða og öryggisþátta svo eitthvað sé nefnt. Enginn skipstjóri hefur nokkurn áhuga á að hafa fjölmennari áhöfn en þörf er fyrir. Því síður vill hann fara með færri menn en hann telur þurfa, til að uppfylla eigin kröfur.“

Sameiginlegir hagsmunir allra

Árni leggur áherslu á að greininni hljóti að farnast best þegar sjómenn og útgerðir eru samstiga, og að sú staða sé ekki neinum til hagsbóta að annar hópurinn líti á hinn sem óvini sína eða andstæðinga:

„Fyrir mörgum árum horfði ég á viðtal við milljarðamæring í Kísildal í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes, og þar var maðurinn spurður hvernig honum hefði tekist að verða svona vellauðugur. Svarið var að hann hafði borið gæfu til að læra það snemma að því betur sem hann gerði við starfsfólkið sitt, því betur gengi honum sjálfum. Því næst var hann spurður hvernig það væri að vera svona ofsalega ríkur og svaraði milljarðamæringurinn að bragði að þegar hann horfði út um skrifstofuglugga sinn í lok vinnudags og sæi starfsfólkið aka áleiðis heim til sín, þá sæi hann á eftir 98% af öllum auðæfum sínum enda byggðust verðmætin á mannauðinum. Þetta viðhorf vinnuveitanda til launþega er sú staða sem mig dreymir um launafólki til handa í mínum villtustu draumum.“

Viðtalið við Árnar var fyrst birt í blaði 200 mílna sem fylgdi Morgunblaðinu 12. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 15.4.21 284,38 kr/kg
Þorskur, slægður 15.4.21 393,01 kr/kg
Ýsa, óslægð 15.4.21 353,13 kr/kg
Ýsa, slægð 15.4.21 353,80 kr/kg
Ufsi, óslægður 15.4.21 134,62 kr/kg
Ufsi, slægður 15.4.21 176,99 kr/kg
Djúpkarfi 6.4.21 30,00 kr/kg
Gullkarfi 15.4.21 254,14 kr/kg
Litli karfi 5.3.21 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 17.2.21 279,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

15.4.21 Bíldsey SH-065 Lína
Hlýri 416 kg
Ýsa 188 kg
Þorskur 178 kg
Gullkarfi 146 kg
Keila 55 kg
Ufsi 29 kg
Steinbítur 23 kg
Grálúða 23 kg
Langa 2 kg
Samtals 1.060 kg
15.4.21 Fanney EA-048 Landbeitt lína
Þorskur 2.499 kg
Ýsa 56 kg
Steinbítur 15 kg
Gullkarfi 12 kg
Samtals 2.582 kg
15.4.21 Steini G SK-014 Grásleppunet
Grásleppa 4.606 kg
Þorskur 101 kg
Rauðmagi 35 kg
Samtals 4.742 kg

Skoða allar landanir »

Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 15.4.21 284,38 kr/kg
Þorskur, slægður 15.4.21 393,01 kr/kg
Ýsa, óslægð 15.4.21 353,13 kr/kg
Ýsa, slægð 15.4.21 353,80 kr/kg
Ufsi, óslægður 15.4.21 134,62 kr/kg
Ufsi, slægður 15.4.21 176,99 kr/kg
Djúpkarfi 6.4.21 30,00 kr/kg
Gullkarfi 15.4.21 254,14 kr/kg
Litli karfi 5.3.21 10,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 17.2.21 279,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

15.4.21 Bíldsey SH-065 Lína
Hlýri 416 kg
Ýsa 188 kg
Þorskur 178 kg
Gullkarfi 146 kg
Keila 55 kg
Ufsi 29 kg
Steinbítur 23 kg
Grálúða 23 kg
Langa 2 kg
Samtals 1.060 kg
15.4.21 Fanney EA-048 Landbeitt lína
Þorskur 2.499 kg
Ýsa 56 kg
Steinbítur 15 kg
Gullkarfi 12 kg
Samtals 2.582 kg
15.4.21 Steini G SK-014 Grásleppunet
Grásleppa 4.606 kg
Þorskur 101 kg
Rauðmagi 35 kg
Samtals 4.742 kg

Skoða allar landanir »