Litakóðunarkerfið setur Þórólfi engar skorður

Litakóðunarkerfið setur Þórólfi engar skorður

Litakóðunarkerfið setur Þórólfi engar skorður

Málefni - Kórónuveiran COVID-19

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist ekki bundinn af litakóðunarkerfi almannavarna í tillögum sínum um aðgerðir vegna Covid-19 og að því geti alveg verið að samkomubann verði rýmkað í meira en 100 manns ef vel gengur í baráttunni við faraldurinn og bólusetningarferlinu.

„Ég bind bara miklar vonir við það bóluefni,“ segir Þórólfur …
„Ég bind bara miklar vonir við það bóluefni,“ segir Þórólfur spurður um bóluefni Johnson & Johnson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur segist binda miklar vonir við bóluefni Johnson & Johnson gegn Covid-19 sem nú er til skoðunar hjá Lyfjastofnun Evrópu. Aðspurður segir hann að það geti haft mikil áhrif á faraldurinn að fá bóluefnið hingað til lands þar sem útlit er fyrir að einn skammtur af því nægi til þess að fólk verði fullbólusett.

Samið um 235.000 skammta en framleiðslugetan óljós

„Mér líst vel á það,“ segir Þórólfur spurður um bóluefni Johnson & Johnson.

„Niðurstöður sem hafa verið birtar um það bóluefni eru mjög jákvæðar og það er líka mjög jákvætt að það virðist virka mjög vel á þessi afbrigði kórónuveirunnar sem menn hafa áhyggjur af. Það er auk þess ánægjulegt að það virðist nægja að gefa einn skammt af [bóluefni Johnson & Johnson]. Ég bind bara miklar vonir við það bóluefni.“

Þórólfur segir þó enn óvíst hversu marga skammta af bóluefni Johnson & Johnson berist hingað til lands. Þá er hvorki dreifingaráætlunin né framleiðslugeta lyfjafyrirtækisins ljós.

„Það er ekki víst að þetta verði mikið magn svo það verður bara að koma í ljós,“ segir Þórólfur. 

Íslensk stjórnvöld hafa samið um bóluefni fyrir 235.000 einstaklinga frá Johnson & Johnson. Áætlun heilbrigðisráðuneytisins gerir ráð fyrir að afhending bóluefnisins hefjist á öðrum ársfjórðungi.

Gult ástand ríkir á landinu þessa dagana. Í því er …
Gult ástand ríkir á landinu þessa dagana. Í því er gert ráð fyrir 50-100 manna samkomutakmörkunum, tveggja metra reglu, grímunotkun og hertum persónulegum sóttvörnum. Skjáskot/Covid.is

Litakóðunarkerfið bara til hliðsjónar

Litakóðunarkerfi almannavarna vegna Covid-19 gerir ráð fyrir fjórum stigum, alvarlegu ástandi, aukinni hættu, „vertu á verði“, og nýja norminu. Nú er landið litað gult í litakóðunarkerfinu og því er hér „vertu á verði“ ástand. Í því mega fjöldatakmörk vera 50 til 100 manna en hið sama gildir í lægsta, og því minnst alvarlega stiginu, nýja norminu. Spurður hvort það sé þá ekki útlit fyrir að fleiri en 100 megi koma saman á næstunni, jafnvel þó faraldurinn haldi áfram að réna hérlendis og bólusetning verði útbreidd segir Þórólfur:

„Ég er ekki bundinn af litakóðunarkerfinu í mínum tillögum til ráðherra. Litakóðunarkerfið er sett upp til þess að gefa fólki væntingar um það hvað næstu tilslakanir eða harðari aðgerðir munu innibera. Það er ekki endilega víst að það sé nákvæmlega eins og stendur í litakóðunarkerfinu en þetta er svona til hliðsjónar.“

Aðspurður segir Þórólfur að það sé því mögulegt að samkomubannið verði rýmra en 100 manna ef vel gengur áfram í baráttunni við veiruna.

mbl.is