Stórir bólusetningadagar framundan

Kórónuveiran COVID-19 | 19. apríl 2021

Stórir bólusetningadagar framundan

„Það er mjög mikið að gera í sýnatökum í dag. Við hvetjum alla til að mæta við minnstu einkenni eða þau sem mögulega hafa verið í tengslum við einhvern smitaðan. Jafnframt er að koma meira og meira bóluefni til landsins, svo að við erum að undirbúa stóra bólusetningadaga framundan,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

Stórir bólusetningadagar framundan

Kórónuveiran COVID-19 | 19. apríl 2021

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

„Það er mjög mikið að gera í sýnatökum í dag. Við hvetjum alla til að mæta við minnstu einkenni eða þau sem mögulega hafa verið í tengslum við einhvern smitaðan. Jafnframt er að koma meira og meira bóluefni til landsins, svo að við erum að undirbúa stóra bólusetningadaga framundan,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

Hún segir að reynt sé að halda sig við eitt bóluefni á dag til að einfalda framkvæmd en nokkur þúsund manns verði bólusett næstu tvær vikurnar.

Röðin í skimun á Suðurlandsbraut nær alla leið upp í …
Röðin í skimun á Suðurlandsbraut nær alla leið upp í Ármúla. Ljósmynd/Aðsend

Fólk á aldrinum 65-70 ára með undirliggjandi áhættuþætti verður boðað í bólusetningu á höfuðborgarsvæðinu á morgun. Bólusett verður með bóluefni Pfizer. 

„Svo höldum við áfram á miðvikudaginn, þá erum við að tala um þá sem eru 65 ára og yngri með undirliggjandi sjúkdóma. Við byrjum á þeim sem eru með erfiðustu sjúkdómana. Fólk sem er á ónæmisbælandi lyfjum eða líftæknilyfjum, krabbameinsveikir og þess háttar. Einnig verður yngra fólk með langtímaveikindi, fatlaðir,“ segir Sigríður Dóra. 

Sigríður Dóra segir að um sé að ræða fleiri þúsund skammta bæði á morgun og miðvikudag. 

Í næstu viku verður bólusett með Pfizer á þriðjudegi, 5.600 skammtar, og AstraZeneca á miðvikudegi á milli 8-9.000 skammtar.

Stóri salurinn í Laugardalshöll undir bólusetningar

Á miðvikudaginn verður bæði bólusett á Suðurlandsbraut og í Laugardalshöll. Sigríður segir að það sé gert til að gefa ákveðnum hóp boðaðra rými. Þess vegna væri gott ef fólk myndi mæta þangað sem boðið segir til um. 

Sigríður segir stærri og stærri hópa verða boðaða á næstunni í bólusetningu og stóri salurinn í Laugardalshöllinni verði tekinn undir bólusetningar. Þannig verði hægt að taka á móti fleirum í einu.

Ekki bólusett með Moderna á landsbyggðinni 

Sigríður segir að framkvæmdin og gangur bólusetninga sé svipaður alls staðar á landinu og reynt sé að gæta samræmis. Þó er ekki bólusett með Moderna utan höfuðborgarsvæðisins vegna þess að það þótti of flókið í flutningum. 

„Það getur alltaf orðið smá mismunur á milli landsvæða því þetta þarf allt að passa saman í pakkningar og lyfjaglös og fleira. En það er enginn stór munur á.“

mbl.is