Tengjast öll fólki sem fór óvarlega í sóttkví

Tengjast öll fólki sem fór óvarlega í sóttkví

Tengjast öll fólki sem fór óvarlega í sóttkví

Málefni - Kórónuveiran COVID-19

Tvö afbrigði af kórónuveirunni eru ráðandi í þeim smitum sem hafa verið greind hér á landi undanfarna daga. Um er að ræða tvö afbrigði veirunnar sem fyrst greindist í Bretlandi. Í báðum tilvikum tengjast smitin einstaklingum sem komu hingað til lands, að sögn Jóhanns Björns Skúlasonar, yfirmanns smitrakningarteymis almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis.

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis alamannavarna.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis alamannavarna. Ljósmynd/Lögreglan

Hann segir að þau smit sem hafi greinst á föstudag og um helgina tengist öll þessum tveimur einstaklingum sem fóru óvarlega í skimunarsóttkví og greindust síðan með smit við seinni sýnatöku.

Smitið á Jörfa tengist einstaklingi sem kom til landsins skömmu fyrir mánaðamót en viðkomandi starfar ekki á leikskólanum heldur einstaklingur sem fór óvarlega með þessum afleiðingum – að yfir 100 fjölskyldur eru í sóttkví og mörg smit. 

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi dagsins að í gær hafi verið komin fram 36 smit í tengslum við Jörfa, þar af 14 börn og 16 starfsmenn. Auk þeirra eru 6 smit tengd fjölskyldum viðkomandi. Smit á Íslenska barnum er tengt þessu hópsmiti. Eins smit í Sæmundarskóla, þar greindist barn í öðrum bekk með Covid-19.

Hitt smitið tengist fiskvinnslunni Íslensku sjávarfangi en þau eru mun færri en smitin í kringum Jörfa eða átta talsins. 

Gestir á Íslenska barnum 9. apríl hafa nú verið boðaðir í sýnatöku í dag en smit hefur verið rakið þangað.

Ekki starfsmenn leikskólans né fiskvinnslunnar

Eins og áður sagði er ljóst að ekki sé um sama smit að ræða á leikskólanum og í fiskvinnslunni. Þetta sjáist í raðgreiningu á smitunum að sögn Jóhanns. Í hvorugu tilviki er um starfsmenn að ræða, það er starfsmenn hjá Jörfa og Íslensku sjávarfangi, sem fóru óvarlega í sóttkví heldur aðra sem ekki fóru varlega meðan á sóttkví stóð. 

Að sögn Jóhanns er smitið á Jörfa rakið til einstaklings sem kom hingað til lands rétt fyrir mánaðamót og greindist með Covid-19 í seinni sýnatöku. Viðkomandi fór í sóttvarnahús í kjölfarið. Eitthvað hefur verið farið óvarlega áður en viðkomandi greindist á fimmta degi segir Jóhann. 

Hann ítrekar að þetta snúist um að fara varlega í sóttkví, ekkert annað. Því veiran hefði alveg getað farið inn á aðra vinnustaði en þessa. Svipað átti sér stað í tengslum við smitin í Íslensku sjávarfangi. 

Einn sem fer óvarlega sendir 100 fjölskyldur í sóttkví

Jóhann segir að það hafi sýnt sig og sannað að sóttkví virkar vel sem vörn svo lengi sem fólk fer eftir þeim einföldu reglum sem settar eru – ekki vera í samskiptum við aðra. Tilgangurinn með því að skikka fólk á sóttkvíarhótel sem kæmi frá ákveðnum löndum hafi verið sá að tryggja það enn betur. Að fólk væri ekki í samneyti við aðra.

Hann segir leiðinlegt að sjá afleiðingarnar af því þegar einn einstaklingur sem kemur að landamærunum fer ekki varlega í fimm daga og nú séu hundrað fjölskyldur í sóttkví. Þetta er það sem við tölum um að einn getur komið af stað bylgju segir Jóhann Björn í samtali við mbl.is. 

„Hugmyndin er sú að þú smitar engan í sóttkví og þannig ertu ekki að viðhalda keðjunni,“ segir Jóhann. 

Skerpt hefur verið á reglum varðandi sóttkví og er það þannig nú að ef barn er í sóttkví eru aðrir sem eru á heimilinu í sóttkví.

Sjá nánar hér

  • Ef hluti heimilsfólks er í sóttkví eftir ferðalag eða er skipað í sóttkví vegna nándar við tilfelli þarf allt heimilið að fara í sóttkví eða þeir sem ekki eru í sóttkví að fara annað um leið og sóttkví hefst. Mögulega gæti annað foreldri verið í sóttkví með barni en hitt foreldrið þarf þá tímabundið að fara annað. Sama á við önnur börn á heimilinu sem ekki er skipað í sóttkví. Foreldri með barni í sóttkví vegna nándar við tilfelli þarf ekki að vera skráð í sóttkví og þarf ekki að fara í skimun til að stytta sóttkví í 7 daga úr 14 dögum. Það er nóg að barnið sé skráð í sóttkví og fari í sýnatöku.

60 smit tengd Laugarnesskólasmitinu

Jóhann segir að þegar smitin komu upp í mars hafi verið þrjú afbrigði veirunnar í gangi og gekk vel að stöðva tvö þeirra en það þriðja, það sem tengist Laugarnesskóla, hafi verið erfiðara viðfangs en alls smituðust 60 manns af því afbrigði. Ekki hefur greinst smit af því afbrigði síðan 15. apríl og því ekki hægt að útiloka það enn þá segir hann. 

mbl.is