Smit af nákvæmlega sama toga

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Smit í Laugarnesskóla og Ísaksskóla eru af nákvæmlega sama toga að sögn Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Aftur á móti er ekki nein sjáanleg tenging á milli smita í skólunum. Ekki hefur verið hægt að rekja þau saman. Það bendir því til þess að smitin tengist sameiginlegum snertiflötum, svo sem stigagangi, líkt og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, talaði um í samtali við mbl.is að væru sterkar vísbendingar um.

Möguleiki er á að einkennalaus einstaklingur tengi þessa hópa saman að sögn Kára og eðlilegt að sóttvarnayfirvöld tali um svikalogn því það geta verið einstaklingar sem tengja þessa hópa saman sem ekki hefur tekist að finna. Um helmingur þeirra sem sýkjast af Covid-19 er einkennalaus þannig að það má vera að einkennalaus einstaklingur hafi hafi tengt þarna á milli því einkennalausir geta sýkt eins og aðrir.

Kári útskýrir þetta með mynd sem á rætur sínar í vinnu sem Páll Melsteð, prófessor við tölvunarfræðideild Háskóla Íslands og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, vann ásamt doktorsnema sínum Kristjáni Eldjárn.

Ljósmynd/Aðsend/Íslensk erfðagreining

Að sögn Kára eru öll smit raðgreind hér á landi innan 24-48 klukkustunda eftir að þau greinast og er Ísland eina landið í heiminum sem raðgreinir öll Covid-19-smit. Ekkert annað land skilar niðurstöðum raðgreiningar eins fljótt og Íslensk erfðagreining gerir hér á landi og nefnir Kári Noreg sem dæmi en þar tekur þrjár vikur að fá niðurstöðurnar.

Rauður hringur á myndinni sýnir þá sem voru í sóttkví við greiningu en svartur er þeir sem ekki voru í sóttkví. Blái liturinn merkir þá sem voru með afbrigði sem fyrst greindist í Bretlandi. Afbrigði sem er allsráðandi hér á landi í dag.

Stökkbreytingartíðnin í þeim smitum sem greindust í Laugarnesskóla og Ísaksskóla eru af nákvæmlega sama toga. „Við sýndum fram á að þessi smit eru af sama toga og ekki er hægt að rekja þau til landamæra eða einhverra annarra,“ segir Kári.

Þau smit sem eru með hvítu inni í hringnum eru þau smit sem ekki voru raðgreind af þeirri ástæðu að það var of lítið veirumagn til að það tækist.

Stundum er hægt að sjá hver smitar hvern og tekur Kári sem dæmi hringina T6821 og T6825. Ef sá síðarnefndi (T6825) er með einhverja stökkbreytingu sem ekki finnst hjá T6821 er ljóst að það er T6821 sem smitaði T6825.

mbl.is