Sverrir danskur meistari í svakalegri lokaumferð

Sverrir Ingi Ingason, lengst til hægri, ásamt liðsfélögum sínum.
Sverrir Ingi Ingason, lengst til hægri, ásamt liðsfélögum sínum. Ljósmynd/Midtjylland

Landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason og liðsfélagar hans í Midtjylland eru danskir meistarar í fótbolta eftir svakalega lokaumferð. 

Fyrir umferðina voru Midtjylland og Bröndby með jafnmörg stig í fyrsta og öðru sætinu en Bröndby var ofar á markatölu. Aftur á móti vann hvorugt lið sinn leik. 

Midtjylland gerði jafntefli við Silkeborg, 3:3, á heimavelli á meðan að Bröndby tapaði fyrir AGF, 3:2, einnig á heimavelli. Endar Midtjylland í fyrsta sæti með 63 stig en Bröndby í öðru með 62. 

Sverrir Ingi lék að vanda allan leikinn fyrir Midtjylland. Stefán Teitur Þórðarson lék þá einnig allan leikinn fyrir Silkeborg. 

Mikael Neville Anderson var í byrjunarliði AGF en var tekinn af velli undir lok leiks. AGF endar í fimmta sæti með 44 stig. 

Köbenhavn í umspil

FC Köbenhavn og Nordsjælland skildu þá jöfn, 1:1, á Parken. Orri Óskarsson lék allan leikinn í liði Kaupmannahafnar. 

Köbenhavn endar með 59 stig en Nordsjælland 58. 

Köbenhavn fer í umspil við Randers, sem vann neðri hluta úrvalsdeildarinnar um hvort liðið fær Evrópusæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert