Á leiðinni í langþráð fimm vikna sumarfrí

Kórónuveiran COVID-19 | 14. júlí 2021

Á leiðinni í langþráð fimm vikna sumarfrí

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir og Jórlaug Heimisdóttir líta yfir farinn veg í samtali við mbl.is, eftir síðasta bólusetningardaginn í Laugardalshöll í dag. Þær segja verkefnið heilt yfir hafa gengið vel og að það sé samstöðu almennings og starfsfólks að þakka.

Á leiðinni í langþráð fimm vikna sumarfrí

Kórónuveiran COVID-19 | 14. júlí 2021

Frá vinstri: Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins …
Frá vinstri: Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Jórlaug Heimisdóttir, framkvæmdastjóri embættis landlæknis. Samsett mynd/Árni Sæberg

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir og Jórlaug Heimisdóttir líta yfir farinn veg í samtali við mbl.is, eftir síðasta bólusetningardaginn í Laugardalshöll í dag. Þær segja verkefnið heilt yfir hafa gengið vel og að það sé samstöðu almennings og starfsfólks að þakka.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir og Jórlaug Heimisdóttir líta yfir farinn veg í samtali við mbl.is, eftir síðasta bólusetningardaginn í Laugardalshöll í dag. Þær segja verkefnið heilt yfir hafa gengið vel og að það sé samstöðu almennings og starfsfólks að þakka.

Þeim merka áfanga hefur nú verið náð að búið er að bólusetja yfir 90% Íslendinga sem eru 16 ára og eldri. Sprautað var með efnum Moderna og Astra Zeneca í dag. 

Síðasti stóri bólusetningadagurinn í Laugardalshöll fyrir sumarfrí var í dag.
Síðasti stóri bólusetningadagurinn í Laugardalshöll fyrir sumarfrí var í dag. Ljósmynd/Árni Sæberg

Segja viðhorf almennings standa upp úr

„Það sem stendur helst upp úr í þessu öllu saman er frábært viðhorf almennings. Hversu vel hann hefur einhvern veginn tekið þessu verkefni, mætt vel og sýnt biðlund í biðröðum. Þetta er náttúrulega heljarinnar verkefni. Við höfum aldrei farið í svona stórt verkefni með þessum hætti áður,“ segir Ragnheiður, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Jórlaug, framkvæmdastjóri hjá embætti landlæknis, tekur undir með henni og segir það frábært að vera komin á þennan stað. „Fólk hefur mætt vel í bólusetningar og starfsfólk hefur staðið vel saman í því að klára þetta,“ segir hún.

Spurð hvað sé eftirminnilegast í ferlinu segir Ragnheiður það vera þegar starfsfólk hefur verið að „hlaupa út um allan bæ“ til að bera út það bóluefni sem hefur orðið afgangs eins og í gær þegar farið var með 75 skammta um borð í skemmtiferðaskipið Viking Jupiter.

„Það hefur verið algert mottó hjá okkur að enginn skammtur fari til spillis. Við höfum lagt gífurlega vinnu í það að koma öllum skömmtum út til þeirra sem þurfa,“ segir hún.

Jórlaug segir allt ferlið í heild sinni vera eftirminnilegt en að sá dagur sem standi upp úr sé 6. maí sem var stærsti bólusetningardagurinn til þessa.

„Þá bara streymdi fólk hér inn og út, Daddi diskó var að spila og það var bara alveg svakaleg gleði yfir öllum. Ég myndi segja að sá dagur sé eftirminnilegastur. Stemmingin hérna var eins og á gamla Hollywood,“ segir hún.

Hyggjast ferðast, slappa af og njóta í sumarfríinu

Fyrirkomulag bólusetninga í haust liggur ekki enn fyrir. „Það er alveg í höndum þeirra í framkvæmdastjórn Heilsugæslunnar og þau munu kynna það síðar,“ segir Jórlaug. Þó sé nokkuð ljóst að ekki verður meira um fjöldabólusetningar í Laugardalshöll að sögn Ragnheiðar.

„Við erum að færa okkur héðan úr höllinni og munum ekki opna hér eftir sumarfrí. Við munum líklega taka endurbólasetningar að einhverjum hluta á Suðurlandsbraut 34 en síðan er bara það lítið af bólusetningum eftir að það verður ekki farið í svona fjöldabólusetningar aftur nema það komi þriðji skammturinn af Pfizer eða annar skammturinn af Janssenn eða eitthvað svoleiðis en sú ákvörðun liggur ekki fyrir ennþá,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður og Jórlaug eru því á leið í langþráð fimm vikna sumarfrí. Spurðar segjast þær helst ætla að gera ekki neitt þessar fimm vikur.

„Bara skoða landið okkar, slappa af og njóta,“ segja þær báðar tvær.

mbl.is