Fjöldi gesta telur Sævar látinn

Tenerife | 22. júlí 2021

Fjöldi gesta telur Sævar látinn

„Já já, við erum enn þá á lífi eftir faraldurinn og erum að halda upp á fimm ára afmælið okkar, verður bara heil afmælishelgi núna,“ segir Herdís Hrönn Árnadóttir, sem í félagi við mann sinn, Sævar Lúðvíksson, rekur einn rómaðasta samkomustað skemmtanaþyrstra Íslendinga á spænsku eyjunni Tenerife, Nostalgia Bar.

Fjöldi gesta telur Sævar látinn

Tenerife | 22. júlí 2021

Herdís og Sævar við verslunarmiðstöðina Parque Santiago 6 skammt frá …
Herdís og Sævar við verslunarmiðstöðina Parque Santiago 6 skammt frá heimili sínu í Arona á Tenerife, augnaráð Sævars hefði sómt sér vel í kvikmynd með Humphrey Bogart. Þau fagna fimm ára rekstrarafmæli í dag.

„Já já, við erum enn þá á lífi eftir faraldurinn og erum að halda upp á fimm ára afmælið okkar, verður bara heil afmælishelgi núna,“ segir Herdís Hrönn Árnadóttir, sem í félagi við mann sinn, Sævar Lúðvíksson, rekur einn rómaðasta samkomustað skemmtanaþyrstra Íslendinga á spænsku eyjunni Tenerife, Nostalgia Bar.

„Já já, við erum enn þá á lífi eftir faraldurinn og erum að halda upp á fimm ára afmælið okkar, verður bara heil afmælishelgi núna,“ segir Herdís Hrönn Árnadóttir, sem í félagi við mann sinn, Sævar Lúðvíksson, rekur einn rómaðasta samkomustað skemmtanaþyrstra Íslendinga á spænsku eyjunni Tenerife, Nostalgia Bar.

Þrálátur misskilningur hefur þó gerst landlægur hjá Herdísi og Sævari síðustu misseri, segir Herdís frá. „Mjög margir gesta okkar halda að Sævar sé dáinn og rekur þá í rogastans þegar þeir koma á barinn og sjá manninn ljóslifandi. Sumir telja hann jafnvel ganga aftur á barnum þegar þeir sjá hann,“ segir Herdís frá.

Er þessi óvenjulegi misskilningur sprottinn af því að Sævari er ruglað saman við Guðmund Guðbjartsson heitinn, veitingamann á barnum Bar-Inn í Los Cristianos þar á eyjunni, sem lést sviplega í janúar í fyrra, aðeins rúmlega fimmtugur að aldri, og varð Íslendingasamfélaginu á Tenerife harmdauði, en Bar-Inn starfrækti Guðmundur ásamt eiginkonu sinni Ingifríði Rögnu Skúladóttur. „Já, í guðs bænum leiðréttu þetta, ómögulegt að fólk haldi að Sævar sé dáinn,“ segir Ingifríður í samtali við Morgunblaðið þegar falast er eftir leyfi hennar til að nefna stórlega ýktar fréttir af andláti Sævars.

Ígildi ræðismannsskrifstofu

Lífið er þar með að ná sínum venjulega takti á Nostalgia-barnum eftir heimsfaraldurinn og kveður Herdís þau Sævar hvergi bangin við að halda veglega fimm ára afmælishátíð um helgina. Eins og dygga lesendur kann að reka minni til hafa nær allir miðlar Árvakurs margrætt við Herdísi og Sævar undanfarin ár og greindi mbl.is meðal annars frá því í áramótaviðtali í byrjun liðins árs, þegar bar þeirra hlotnaðist sú sæmd að verða ígildi ræðismannsskrifstofu Íslands á Tenerife og kvennaklósettið var gert að kjörklefa fyrir kosningar uppi á Íslandi.

Þurftu að loka eins og aðrir

„Við byrjum á fimmtudaginn [í dag] með músikk-quizzi [spurningakeppni um tónlist] þar sem við gerum ráð fyrir mjög mörgum gestum. Á föstudaginn [á morgun] verður þriggja rétta afmæliskvöldverður hjá okkur og svo á laugardag hoppukastali, fríar pylsur og ís, svo við ætlum bara að fagna því almennilega að vera búin að ná að halda rekstrinum gangandi í fimm ár,“ segir Herdís, en þau hjónin máttu, eins og aðrir vertar um heim allan, sæta því að loka dyrum sínum á meðan heimsbyggðin gekk grímuklædd um dimman dal síðasta hálft annað ár og hefur ef til vill ekki enn lokið þrautagöngu sinni ef marka má fréttir síðustu daga.

Og eins og venjulega, þegar byrjað er að ræða kórónufaraldurinn við Íslendinga erlendis, er erfitt að stoppa.

– Hvernig gekk þetta eiginlega hjá ykkur?

„Við fengum engan styrk frá ríkinu, Spánn var bara ekki með það þangað til í febrúar á þessu ári. Núna er þetta þannig að ég fæ 600 evrur í styrk ef ég er undir 50 prósentum í sölu miðað við hvað ég seldi venjulega fyrir tveimur árum,“ útskýrir Herdís, „og við náum því ekki núna, enda varla hægt að bera saman við 2019 þegar var brjálað að gera hjá okkur, til dæmis finnski hópurinn á laugardögum,“ heldur vertinn áfram, en eins og mbl.is greindi frá í áramótaviðtali snemmárs í fyrra eiga finnskir ellilífeyrisþegar sér fast kvöld á Nostalgia á laugardögum, sem svo rammt kveður að, að finnsk útvarpsstöð hefur gert út fólk og sent til Tenerife til að fjalla um þessi annáluðu kvöld þar sem Sævar Lúðvíksson, sem þó er talinn látinn, hefur troðið upp með söng og gítarleik þannig að eldri finnskar konur falla í stafi af hrifningu.

Vissi hvað allir vildu drekka

– En áfram með leiðinlegt veirutal, hvað annað?

„Það sem gerðist þegar við opnuðum 1. október, þá opnuðum við einn dag í viku og vorum þá að höfða til Íslendinga sem eru búsettir hér, sem þýddi að mjög auðvelt var að kaupa inn, ég vissi hverjir myndu mæta og vissi fyrir fram hvað þeir vildu drekka,“ rifjar Herdís upp frá liðnum vetri. Núna séu ferðamenn allra þjóða komnir í spilið aftur og salan því mun fjölbreyttari, meira um hanastélsdrykki til að mynda og innkaupin því flóknari. „En þetta er auðvitað miklu skemmtilegra núna samt,“ segir hún.

Þurftu að finna áhugamál

– En hvað gerið þið þegar þið eigið frí?

„Já, það varð nú hálfgert vandamál úr því,“ segir Herdís og hlær sínum þekkta dillandi hlátri. „Okkur langaði að eiga okkur eitthvert annað áhugamál en að sitja á börum að drekka eða fara í kokteilboð, við rekum jú bar. Sævar er nú með nýjar mjaðmir, búið að skipta um mjaðmir í honum, en ég gat samt ekki farið að láta hann strippa, hann er of gamall fyrir það, svo við ákváðum að skella okkur í golf, eitthvað sem er heilbrigt og hefur ekkert með áfengi að gera, og nú er Sævar orðinn alveg „hooked“ á golfi,“ segir Herdís og hlær. Þannig að nú eigum við okkur alla vega sameiginlegt áhugamál, en Sævar er miklu betri en ég, hann var byrjaður á þessu löngu fyrr. Nú vantar mig bara sætan ungan golfkennara,“ segir Herdís sposk og hlær enn af hjartans lyst.

Gott ár fyrir faraldurinn

Í heildina segir hún þau afskaplega ánægð með stöðuna nú, þrátt fyrir öldudalinn, sem vonandi er brátt að baki.

„Við höfum ekki fengið styrki frá neinum og höfum ekki tekið nein lán, við áttum mjög gott ár fyrir faraldurinn, vorum búin að leggja smá fyrir til að kaupa ný borð og eitthvað svona, en notuðum það þá bara í staðinn til að fleyta okkur gegnum faraldurinn og nú horfum við bara björtum augum á framtíðina, lífið er að byrja aftur,“ segir Herdís Hrönn Árnadóttir, sem hefur rekið bar í framandi suðurevrópsku umhverfi í fimm ár, en, rétt eins og kettirnir, hafa þau Sævar alltaf komið niður standandi fram til þessa. Kannski hafa nýju mjaðmirnar hans Sævars eitthvað með það að gera.

mbl.is