Býst við auknum smitfjölda á næstunni

Kórónuveiran Covid-19 | 20. október 2021

Býst við auknum smitfjölda á næstunni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir líklegt að kórónuveirusmitum eigi eftir að fjölga á næstunni en í gær greindust 66 smit innanlands og í fyrradag 80.

Býst við auknum smitfjölda á næstunni

Kórónuveiran Covid-19 | 20. október 2021

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir líklegt að kórónuveirusmitum eigi eftir að fjölga á næstunni en í gær greindust 66 smit innanlands og í fyrradag 80.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir líklegt að kórónuveirusmitum eigi eftir að fjölga á næstunni en í gær greindust 66 smit innanlands og í fyrradag 80.

Þar áður voru að greinast í kringum 20 til 40 smit innanlands. Hann segir ástæðuna fyrir þessar aukningu hugsanlega vera að þrátt fyrir að takmarkanir hafi verið í gildi hafi fólk kannski ekki farið nægilega vel eftir þeim.

„Þetta snýst allt um hvernig fólk hugsar um sínar sóttvarnir og sýkingarvarnir og hegðar sér í fjölmenni og annað slíkt,“ segir Þórólfur.

Um 2% þurfa að leggjast inn

„Ég held að við megum alveg eins búast við því að fara að sjá fleiri greinast á næstunni. Auðvitað veit maður ekkert hvað þetta fer hátt en við verðum að búa okkur undir það. Þá er aðalmálið hversu margir munu þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.“

Hann nefnir að í gegnum þessa bylgju hafi komið í ljós að um 2% af þeim sem greinast með smit þurfa að leggjast inn og bætir við að tveir hafi verið lagðir inn í gær. „Ef við fáum 100 manns á dag sem við greinum þá megum við búast við að tveir af þeim þurfi að leggjast inn á sjúkrahús.“

Þá snýst allt um hversu veikt fólkið er sem leggst inn og hvaða áhrif það myndi hafa á aðra starfsemi Landspítalans, að sögn Þórólfs. 

Sýnataka vegna kórónuveirunnar.
Sýnataka vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gott að vera viðbúinn óvæntum atburðum

Spurður hvað þurfi til þess að hertar takmarkanir verði aftur settar á bendir hann einmitt á stöðuna á spítalanum. Eftir að settar voru á takmarkanir í sumar í kjölfar þess að öllu hafði áður verið aflétt segir hann að slæm staðan á spítalanum hafi ráðið þar úrslitum.

„Þá er alltaf spurningin, hvað eiga menn að vera fljótir að grípa til þeirra aðgerða? Við vitum að því lengur sem beðið er því slakari áhrif hafa þessar takmarkanir. Þær eru betri því fyrr sem maður grípur til þeirra en það þarf að vera jafnvægi. Það er lítill hljómgrunnur fyrir harðari aðgerðum eins og staðan er og það er ósköp skiljanlegt, enda er það ekki til skoðunar eins og staðan er núna, en auðvitað þarf líka að hugsa fram í tímann og vera viðbúinn ef eitthvað óvænt gerist,“ greinir Þórólfur frá.

Bólusetja með þriðju sprautunni

Stjórnvöld greindu í gær frá afléttingum í tveimur skrefum. Spurður hvað verður frábrugðið í samfélaginu eftir mánuð, meðal annars í ljósi dvínandi áhrifa bólusetninga með tímanum, segir hann engan stóran mun til eða frá á einum mánuði varðandi ónæmið. Hann bætir við að enginn viti nákvæmlega hvað ónæmið minnkar mikið. Núna séu verið að bóluetja þá með þriðju sprautu sem svara verr tveimur sprautum.

„Ég held að það sé skynsamlegt að gera þetta í skrefum heldur en að rumpa þessu af í einum vettvangi.“

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óbólusettir verða veikari

Í gær voru 27 óbólusettir af þeim 66 sem greindust og í fyrradag voru 36 af þeim 80 sem greindust með smit óbólusettir. 

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af fjölda óbólusettra sem greinast með veiruna segir hann fjölda óbólusettra hafa verið um helming af þeim sem hafa greinst.

„Það segja mér læknar á spítalanum að það sé greinilegur munur á veikindum þeirra sem eru óbólusettir og bólusettir. Það eru alvarlegri veikindi hjá þeim sem eru óbólusettir heldur en hjá þeim sem eru bólusettir. Ég held að það sé til mikils að vinna fyrir þá sem hafa ekki farið í bólusetningu að gera það,“ segir Þórólfur.

mbl.is