Jákvæð áhrif hærra fasteignamats „í raun engin“

Húsnæðismarkaðurinn | 8. júní 2022

Jákvæð áhrif hærra fasteignamats „í raun engin“

Neikvæð áhrif hærra fasteignamats eru nokkur og munu þau m.a. birtast í auknum útgjöldum vegna gjalda sem miðast við fasteignamat, að mati Hagsmunasamtaka heimilanna. 

Jákvæð áhrif hærra fasteignamats „í raun engin“

Húsnæðismarkaðurinn | 8. júní 2022

Fasteignamat hækkar verulega um áramótin.
Fasteignamat hækkar verulega um áramótin. mbl.is/Hákon Pálsson

Neikvæð áhrif hærra fasteignamats eru nokkur og munu þau m.a. birtast í auknum útgjöldum vegna gjalda sem miðast við fasteignamat, að mati Hagsmunasamtaka heimilanna. 

Neikvæð áhrif hærra fasteignamats eru nokkur og munu þau m.a. birtast í auknum útgjöldum vegna gjalda sem miðast við fasteignamat, að mati Hagsmunasamtaka heimilanna. 

Í síðustu viku var tilkynnt að heildarmat fasteigna á Íslandi hækki um 19,9% um áramót. 

„Sé litið til ástandsins á fasteignamarkaði og gríðarlegra verðhækkana á húsnæði kom þetta ekki sérstaklega á óvart. Eðlilegt er að fasteignamat endurspegli raunverð á markaði. Þar með er þó ekki öll sagan sögð,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. 

„Það er staðreynd að hærra fasteignamat hækkar ekki ráðstöfunarfé heimila eða fyrirtækja. Jákvæð áhrif eru í raun engin, nema kannski „á pappírum” en neikvæðu áhrifin eru hins vegar þó nokkur og munu m.a. birtast í hærri gjöldum sem miðast við fasteignamat.“

Sér ekki fyrir endann á hækkun leiguverðs

Í tilkynningunni segir að fasteignagjöld af meðalíbúð muni hækka um tugi þúsunda vegna hækkunar á fasteignamati. 

„Á sama tíma og það gerist, horfast bæði heimili og fyrirtæki í augu við gríðarlegar hækkanir á afborgunum lána, auk þess sem allar nauðsynjavörur hafa hækkað mikið. Einnig má nefna að hækkun fasteignamats hefur samsvarandi áhrif til hækkunar stimpilgjalda sem er ósanngjörn skattlagning á húsnæðiskaup. Jafnframt er hætt við að margir sem þurfa að reiða sig á vaxtabætur munu missa þær við að mælast yfir eignaskerðingarmörkum eftir hækkun fasteignamats, þrátt fyrir að raunveruleg fjárhagsstaða þeirra og útgjaldaþol hafi ekkert breyst.“

Þá bæta samtökin því við að hærra fasteignamat muni leiða til hærra leiguverðs, sem þó hefur þegar hækkað um tugi þúsunda.

„Ekki sér enn fyrir endann á þeim hækkunum og fyrirsjáanlegar hækkanir vegna fasteignamats munu enn bæta gráu ofan á kolsvartan veruleika leigjenda.“

Verði að taka ábyrgð

Telja Hagsmunasamtök heimilanna að sveitarstjórnir og stjórnvöld verði að taka ábyrgð á ástandinu. Nú þegar hafa nokkur sveitarfélög gefið það út að þau ætli að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda vegna hækkana á fasteignamati. Fagna hagsmunasamtök heimilanna því en segja að lækka þurfi prósentuna töluvert svo að hækkun fasteignamats bitni ekki „illilega“ á heimilum og fyrirtækjum.

„Hækkanir stafa fyrst og fremst af skorti á húsnæði og í því sambandi má geta þess að strax árið 2010 vöruðu Hagsmunasamtök heimilanna við því að dregið yrði úr framkvæmdum og uppbyggingu húsnæðis. Samtökin töluðu fyrir daufum eyrum og neytendur, heimili og fyrirtæki súpa seyðið af því í dag. Hvorki heimili né fyrirtæki eru ótæmandi uppsprettur fjármagns og staðreyndin er sú að mörg þeirra eru þegar farin að skrapa botninn á brunninum og hafa ekki meira aflögu.“

Segja samtökin að grundvallaratriðið sé að skattar hækki aldrei sjálfkrafa, eins og skattar á fasteignir gera.

„Þar þarf breytta löggjöf, þannig að alltaf þurfi að fara fram umræða hjá þar til bærum yfirvöldum sem síðan leiði til ákvörðunar um breytingar sem kjörnir fulltrúar bera pólitíska ábyrgð á.“

mbl.is