Hvar ætla Íslendingar að búa?

Húsnæðismarkaðurinn | 21. mars 2024

Hvar ætla Íslendingar að búa?

Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents, kynnti nýja könnun á Framkvæmdaþingi Húsasmiðjunnar í dag.

Hvar ætla Íslendingar að búa?

Húsnæðismarkaðurinn | 21. mars 2024

Ætla má að margir vilji eða efri árum fjarri kulda …
Ætla má að margir vilji eða efri árum fjarri kulda og trekk á Íslandi. Samsett mynd

Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents, kynnti nýja könnun á Framkvæmdaþingi Húsasmiðjunnar í dag.

Trausti Haraldsson, framkvæmdastjóri Prósents, kynnti nýja könnun á Framkvæmdaþingi Húsasmiðjunnar í dag.

Könnunin var um það hvar og hvernig Íslendingar sæju fyrir sér að búa eftir fimm ár.

Vistvænt húsnæði skiptir eldri borgara máli

Fimm ár segir Trausti ekki vera svo langan tíma og geta því gefið raunsanna mynd á næstu skrefum í búsetu fólks. Trausti segir ýmislegt hafa komið sér á óvart í niðurstöðum könnunarinnar, ekki síst það sem sneri að elsta aldurshópnum.

Flestir í þeim hópi, eða um 67%, segja það skipti miklu máli að húsnæðið sem það búi í sé vistvænt. Þótt hlutfallið snarlækki hjá öllum svarendum þegar spurt er hvort svarendur væru tilbúnir til þess að greiða meira fyrir vistvænt húsnæði, þá eru 65 ára og eldri enn mest tilbúnir til þess.

„Það kom pínu á óvart. Fyrirfram var ég búinn að ímynda mér að það yrði yngri hópur sem legði svo mikla áherslu á þetta, t.d. 35-44 ára,“ segir Trausti í samtali við mbl.is. Hafa ber í huga að þetta er líka sá hópur sem hefur mestu fjárráðin, og Trausti bætir við: „Sé þessi hópur skoðaður, þá kemur í ljós að hann er sá sem mest á af rafbílum og hefur efni á að kaupa þá.“

Z-kynslóðin vill vera nærri verslun og þjónustu

Þegar yngri aldurshópar eru skoðaðir, til dæmis 18-24 ára, þá kemur verð og ástand eignar fyrst upp í huga þeirra. Athygli vekur að 42% svarenda úr þeim hópi segja að fjarlægð frá verslun og þjónustu skipti miklu vali við val á eign. Trausti er spurður hvort þetta sé til marks að ungt fólk ætli að temja sér bíllausan lífstíl.

„Þegar Z-kynslóðin er rannsökuð þá er henni augljóslega mjög annt um umhverfið og vilja finna leiðir til að lágmarka kolefnisspor sitt. Það má líka nefna að það er dýrt að reka bíl og yngra fólk vill hafa auðveldara að sækja þessa þjónustu og nýtt sér ódýrari samgöngumáta.“

Sveitarfélög gætu skipulagt til framtíðar

Blaðamaður spyr Traust hvaða gagn byggingaaðilar og sveitarfélög geti haft af könnunum sem þessum.

„Ég myndi eindregið hvetja til þess að sambærileg könnun yrði gerð hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Ef við tökum bara eitthvað sveitarfélag, til dæmis Garðabæ, þyrftu um 400 svör verða að baki marktækrar niðurstöðu. Þá væri í framhaldinu hægt að fara í nánari greiningu á því hvaða hverfi þurfi að skoða betur. Ein spurning væri þá líka hvort fólk sjái fyrir sér að búa áfram í sveitarfélaginu eftir fimm ár, og jafnvel fá niðurstöðu úr öðrum könnunum um fólk sem ætlar sér að flytja í Garðabæ.“

Stór hópur ætlar að búa utan Íslands

Eitt af grunnniðurstöðum könnunarinnar er að 4,2% svarenda ímynda sér að þeir muni búa erlendis eftir fimm ár. Trausti er því spurður hverju þessu sætir, og hvort hluti innflytjenda ætli sér búsetu annar staðar en á Íslandi eftir fimm ár?

„Já, það getur verið. 20% þjóðarinnar eru innflytjendur. Ég myndi segja að við höfum náð til um það bil helmings af þeim hóp, þ.e. fólks sem hefur sest hér að og aðlagast. Svo eru hin 10% sem finnast hvergi á skrá, eru ekki með skráð símanúmer eða annað slíkt og því erfitt að ná til. Það er mikið til fólk sem hefur verið hér í styttri tíma og óvíst hvort það haldi af landi brott eftir einhvern tíma á Íslandi. Ég gæti því trúað að þessi hópur geti haft áhrif á framboð og eftirspurn.“

4% þýðir 16 þúsund manns

En Trausti bætir við og bendir aftur á elsta aldurshópinn:

„Svo er líka hátt hlutfall hjá aldurshópnum 55-64 ára. Þeir sjá fyrir sér að ætla eyða efri árunum utan landsteinanna.“

Trausti segir að lokum að þótt að 4% hafi sagst ætla búa utan landsteinanna hljómi ekki sem mjög há tala, þá sem hlutfall af 400 þúsund manna þjóð sé það um 16 þúsund manns.  

Gögnum var safnað frá 14. til 20. mars 2024. Aðferð: Netkönnun meðal könnunarhóps Prósents. Úrtak: 2250 (einstaklingar 18 ára og eldri) Svarhlutfall: 52% Gögn voru vigtuð til að úrtak endurspegli álit þjóðarinnar. Tekið var tillit til kyns, aldurs og búsetu.

mbl.is