Hátt vaxtastig stendur uppbyggingu fyrir þrifum

Húsnæðismarkaðurinn | 21. mars 2024

Hátt vaxtastig stendur uppbyggingu fyrir þrifum

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir háa stýrivexti Seðlabankans standa nauðsynlegri húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík fyrir þrifum.

Hátt vaxtastig stendur uppbyggingu fyrir þrifum

Húsnæðismarkaðurinn | 21. mars 2024

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri segir að áfram verði byggt í grónum …
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri segir að áfram verði byggt í grónum hverfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir háa stýrivexti Seðlabankans standa nauðsynlegri húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík fyrir þrifum.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir háa stýrivexti Seðlabankans standa nauðsynlegri húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík fyrir þrifum.

Í máli hans á framkvæmdaþingi Húsasmiðjunnar í dag kom fram að borgarbúar gætu orðið 150 þúsund áður en kjörtímabilinu lýkur, en samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar eru íbúar nú um 136 þúsund. 

Fjölgað sem nemur Hveragerði á einu ári

Á árinu 2023 hafi borgarbúum fjölgað um 4 þúsund, eða svipað og sveitarfélag eins og Hveragerði hefði bæst við á einu ári. Blaðamaður mbl.is ræddi við borgarstjóra og spurði frekar út í erindi hans.

„Seðlabankinn var mjög opinskár með það markmið sitt að frysta húsnæðismarkaðinn. Hann bæði þrengdi að lántökumöguleikum og hækkaði vaxtastigið upp úr öllu valdi. Við sjáum það í tölunum að uppbyggingaraðilar héldu að sér höndum, hægðu á þeim verkefnum sem þegar voru farin af stað og réðust ekki í ný verkefni í fyrra.“

Skilur forsendur seðlabankans

Einar segist þó skilja forsendur bankans og bætir við: „Við höfum alveg skilning á hans stöðu og ég gagnrýni ekki hans ákvarðanir. Hann hefur stærra samhengi á borðinu þegar hann tekur sínar ákvarðanir.“

Í núverandi stöðu segir Einar borgina geta brugðist við með því að gera samninga og veita stofnframlög til óhagnaðardrifinna íbúðafélaga til þess að hvetja þau til að halda áfram að byggja. Hann segir þau betur fjármögnuð en marga einkaaðila og geta því frekar ráðist í framkvæmdir.

Skiptir máli að mæta þörfum Grindvíkinga

Spurður hvort að það breyti ekki töluvert stöðunni í húsnæðismálum þegar möguleiki er á að um 1% þjóðarinnar standi frammi fyrir því að missa heimili sín, líkt og reyndin virðist vera í Grindavík.

„Jú, það skiptir gríðarlegu máli að mæta þörfum Grindvíkinga, með öllum þeim leiðum sem við getum. Við höfum átt aðild að starfshópi á vegum stjórnvalda, um uppbyggingu einingarhúsnæðis fyrir þennan hóp. Við höfum lagt fram tillögur um lóðir fyrir slíkt húsnæði og þær eru á borði stjórnvalda í dag.“

Borgarstjóri segir þó verkefnið flókið þar sem staðan á Reykjanesskaga sé síbreytileg og ekki öll kurl komin til grafar.

„Ég hef því ákveðna samúð með þeim sem þurfa að taka ákvarðanir um hversu mikið magn af einingarhúsum þarf að kaupa eða ekki, vegna þess að staðan er á hreyfingu.“

Þrýstingur vegna Grindavíkur mögulega á önnur sveitarfélög

Einar segir jafnframt að þegar horft sé yfir byggðina í Grindavík þá sé hún mikið samansett af stærri eignum, raðhúsum og parhúsum. Hann segir minna af slíkum eignum í boði í Reykjavík, og reyndar á höfuðborgarsvæðinu öllu, og því geti pressan orðið meiri á önnur sveitarfélög vegna brottflutnings Grindvíkinga.

„Á endanum ráða Grindvíkingar sjálfir hvar þeir vilja búa. Forsendur þeirra munu tengjast hvar þeir sækja atvinnu, hvar börnin eru í skóla og fleiru slíku. Málin eru líka enn tengd þeirri óvissu hvort þau snúi heim eða ekki,“ segir Einar.

Áfram byggt í grónum hverfum 

Fram kom í erindi Einars að áherslan í lóðaúthlutun verði enn á svæði í grónum hverfum, frekar enn að brjóta nýtt land undir hverfi. Einar var spurður nánar út í forsendurnar þar að baki.

„Gatnagerðargjöld og innviðagjöld fyrir stærri verkefni standa ekki undir þeim mikla innviðakostnaði sem leggst á sveitarfélög þegar nýtt hverfi er byggt. Þegar nýtt hverfi kemur til sögunnar er mikil krafa að bæði leik- og grunnskóli séu þar til staðar og önnur mannvirki fyrir íþrótta- og tómstundastarf.“

Íbúar Grafarvogs og Breiðholts að eldast

Hann segir að í núverandi vaxtastigi sé uppbyggingarkostnaður gríðarhár bæði fyrir byggingarfélögin og sveitarfélögin og þurfi því að sýna skynsemi hvar byggt er upp.

„Við höfum séð það að Grafarvogurinn hefur verið að eldast og þar er svigrúm í skólunum. Það sama gildir um Breiðholtið líka. Þá byggjum við þar. Það er skynsamlegt og þá getum við nýtt fjármagnið í það að ráða inn nýja leikskólakennara og gera það sem þarf að gera til að mæta væntingum íbúanna,“ segir Einar að lokum.

mbl.is