Meirihluti landsins skartar gulum eða appelsínugulum viðvörunum á korti Veðurstofunnar, en varað er við stormviðri á komandi dögum.
Meirihluti landsins skartar gulum eða appelsínugulum viðvörunum á korti Veðurstofunnar, en varað er við stormviðri á komandi dögum.
Meirihluti landsins skartar gulum eða appelsínugulum viðvörunum á korti Veðurstofunnar, en varað er við stormviðri á komandi dögum.
Á Suðausturlandi verður gul viðvörun í gildi frá því klukkan 14 á morgun, mánudag, vegna hvassviðris og snjókomu. Vindur fer í 15 til 20 stig, skyggni takmarkað og öflugar hviður í vindstrengjum við fjöll. Akstursskilyrði verða erfið og færð gæti spillst.
Klukkan 16 tekur svo við appelsínugul viðvörun, en austan stórhríð er í kortunum. Fer vindur þá upp í 20 til 28 metra á sekúndu, en þó hægari austan Öræfa. Talsverð snjókoma eða slydda verður með lélegu skyggni.
Frá því klukkan 16 á mánudag, til klukkan 7, þriðjudagsmorgun, verður ekkert ferðaveður og hætta á foktjóni.
Svipað veður verður á Suðurlandi og Suðausturlandi. Gul viðvörun tekur gildi fyrr, eða klukkan 11 mánudagsmorgun, og gildir til klukkan 14 en þá tekur sú appelsínugula við.
Verður appelsínugul viðvörun í gildi til klukkan 8 á þriðjudagsmorgun. Ekkert ferðaveður og hætt við foktjóni, en vindur verður á bilinu 20 til 28 metrar á sekúndu ásamt talsverðri snjókomu eða slyddu.
Austan hvassviðri eða stormur, með vindstyrk á bilinu 15 til 23 metra á sekúndu, verður á höfuðborgarsvæðinu. Einnig eru líkur á snjókomu eða slyddu með takmörkuðu skyggni.
Gul viðvörun tekur því gildi klukkan 15 og gildir til klukkan 3 aðfaranótt þriðjudags. Færð gæti spillst á þeim tíma og lausir munir fokið.
Gul viðvörun tekur gildi á Faxaflóa klukkan 14 á morgun og verður í gildi uns appelsínugul viðvörun tekur við klukkan 17. Sú appelsínugula gildir til klukkan 23 sama kvöld.
Akstursskilyrði verða því erfið vegna austan hvassviðris og snjókomu í upphafi, sem breytist í austan storm eftir því sem líður á daginn. Hviður kunna að fara yfir 40 metra á sekúndu í vindstrengjum við fjöll, til dæmis á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Einnig verður víða snjókoma eða slydda og því ljóst að á þessu tímabili verður ekkert ferðaveður og hætt við foktjóni.
Austan og norðaustan stórhríð verður á miðhálendinu, þar sem búast má við að vindstyrkur verði á bilinu 20 til 28 metrar á sekúndu með lélegu skyggni. Því er ekkert ferðaveður.
Viðvörunin tekur gildi klukkan 12 að hádegi á morgun og gildir til klukkan 11 að morgni þriðjudags.
Í Breiðafirði verða vindstrengir við fjöll, sums staðar yfir 35 metrar á sekúndu en annars verður vindur á bilinu 18 til 23 metrar á sekúndu. Tekur viðvörunin gildi klukkan 15 á morgun og gildir til klukkan 7 morguninn eftir.
Einnig má búast við snjókomu með takmörkuðu skyggni. Lausir munir gætu fokið og færð spillst.
Frá því klukkan 15 til klukkan 20 á morgun verður gul viðvörun í gildi á Vestfjörðum. Hviður kunna á því tímabili að fara yfir 35 metra á sekúndu á stöku stað auk þess sem líkur eru á skafrenningi og takmörkuðu skyggni.
Við tekur svo appelsínugul viðvörun sem gildir til klukkan 6 að morgni þriðjudags. Eykur þá í vindinn og hviðurnar eflast um leið. Ekkert ferðaveður og hætt við foktjóni.
Loks verður austan hvassviðri eða stormur á Ströndum og norðvestanverðu landinu. Gul viðvörun tekur gildi klukkan 17 annað kvöld og gildir til klukkan 7 morguninn eftir.
Lausamunir gætu fokið og færð spillst.