„Fyrir þremur árum las hann svo Biblíuna og bað mín“

Brúðkaup | 24. febrúar 2024

„Fyrir þremur árum las hann svo Biblíuna og bað mín“

Sandra Sif Magnúsdóttir deildarstjóri og Arnór Sveinn Aðalsteinsson, knattspyrnumaður og kennari, giftu sig þann 29. desember síðastliðinn. Þau héldu eina skemmtilegustu og best skipulögðu veislu sem sögur fara af en gifting var ekki alltaf á dagskrá hjá hjónunum.

„Fyrir þremur árum las hann svo Biblíuna og bað mín“

Brúðkaup | 24. febrúar 2024

Sandra Sif og Arnór Sveinn nýgift.
Sandra Sif og Arnór Sveinn nýgift. Ljósmynd/Hildur Erla

Sandra Sif Magnúsdóttir deildarstjóri og Arnór Sveinn Aðalsteinsson, knattspyrnumaður og kennari, giftu sig þann 29. desember síðastliðinn. Þau héldu eina skemmtilegustu og best skipulögðu veislu sem sögur fara af en gifting var ekki alltaf á dagskrá hjá hjónunum.

Sandra Sif Magnúsdóttir deildarstjóri og Arnór Sveinn Aðalsteinsson, knattspyrnumaður og kennari, giftu sig þann 29. desember síðastliðinn. Þau héldu eina skemmtilegustu og best skipulögðu veislu sem sögur fara af en gifting var ekki alltaf á dagskrá hjá hjónunum.

Sandra og Arnór eiga saman tvö börn og höfðu verið saman í um tíu ár þegar Arnór fór á skeljarnar fyrir þremur árum. „Hann vildi aldrei gifta sig. Hann sagði mér það þegar við byrjuðum saman og ég pældi ekkert meira í því. Fyrir þremur árum las hann svo Biblíuna og bað mín í kjölfarið - sá það eftir lesturinn að það væri eina vitið,“ segir Sandra brosandi.

Er hann dellukarl?

„Já hann er smá dellukarl og heimspekingur auðvitað. Hann er búinn með master  heimspekikennslu og datt í hug að lesa Biblíuna. Arnór hefur alveg farið í að skrá sig úr og í Þjóðkirkjuna og allt þar á milli. Honum dettur svo marg sérstakt í hug.“

Hjónin ákváðu að gifta sig í desember og fengu kirkjuna …
Hjónin ákváðu að gifta sig í desember og fengu kirkjuna og salinn sem þau langaði. Ljósmynd/Hildur Erla

Kópavogur lykilstef í sambandinu

Sandra segir að Arnór hafi farið á skeljarnar fyrir utan Kópavogskirkju þegar þau voru bara tvö úti í bíltúr. Arnór er úr Kópavogi en Sandra úr Breiðholtinu og spila og spiluðu bæði fótbolta með Breiðabliki og kynntust í gegnum boltann. Þau giftu sig auðvitað í Kópavogskirkju en veislan fór fram í Hlégarði.

Aðspurð segir Sandra ekki mikið hafa breyst síðan þau giftu sig í lok desember en þau svífa þó enn á bleiku skýi. „Ég hef skipulagt marga viðburði í gegnum tíðina en ég bjóst ekki við þessari tilfinningu og svo sterkri upplifun, allt öðruvísi en í öðrum veislum og viðburðum sem ég hef haft umsjón með.“

Það eru rúm tvö ár síðan Arnór fór á skeljarnar en í janúar í fyrra ákváðu þau dagsetningu og skipulagning hófst. Desemberbrúðkaup eru ekki jafn algeng og sumarbrúðkaup og vildi svo heppilega til að bæði kirkjan og salurinn voru laus. „Alvöru skipulagning á partíinu hófst svona í júní, júlí. Svo var nánast allt klárt í ágúst en þurfti smá eftirfylgni þegar nær dró.“

Sandra og Arnór giftu sig í Kópavogskirkju en þau hafa …
Sandra og Arnór giftu sig í Kópavogskirkju en þau hafa sterka tengingu við Kópavog. Ljósmynd/Hildur Erla

Veislan fór fram í Hlégarði en salurinn tikkaði í öll box hjá Söndru og Arnóri.

„Það eru mjög fáir salir á Íslandi sem bjóða upp á að koma sjálf með mat og vín og mér fannst mikilvægt að hafa svið og forsal. Ég hef farið í nokkur brúðkaup þar sem fólk stendur einhvern veginn úti á miðju gólfi þar sem veislustjórum og ræðuhöldum og öðrum skemmtiatriðum er ekki gert nógu hátt undir höfði. Ég vildi að fordrykkurinn færi fram í forrýminu sjálfu frekar en í sjálfum salnum. Einnig vildum við að ef fólk vildi fá hvíld frá tónlistinni þá gæti það farið í forsalinn,“ segir hún.

Ljósmyndarinn Hildur Erla fangaði augnablikin í veislunni. Hjónin endurupplifa brúðkaupið …
Ljósmyndarinn Hildur Erla fangaði augnablikin í veislunni. Hjónin endurupplifa brúðkaupið þegar þau skoða myndirnar. Ljósmynd/Hildur Erla

Söfnuðu fyrir brúðkaupinu í yfir tvö ár

Svona glæsileg brúðkaup kosta sitt en Sandra og Arnór eru skipulögð og stofnuðu sérstakan reikning fljótlega eftir að ljóst var að þau ætluð að láta slag standa. „Um um leið og Arnór bað mín bjuggum við til brúðkaupsreikning sem við lögðum inn á fasta upphæð í mánuði í rúmlega tvö ár. Í rauninni áttum við fyrir brúðkaupinu og splæstum síðan í ferð úr ferðasjóðnum okkar – allt samkvæmt plani.“

Fyrir utan það að leggja fyrir leitaði Sandra tilboða.

„Ég fékk fullt af tilboðum frá hinum ýmsu fyrirtækjum, hvort sem það var varðandi matinn, prentefni, blóm eða annað „propps“ sem þurfti að kaupa fyrir veisluna. Síðan völdum við bara út frá því sem okkur leist best á og hvað við vorum tilbúin að borga hverri þjónustu fyrir sig. Svo mæli ég með öllum þessum brúðkaupssíðum sem hægt er að finna gersemar inn á. En það er alltaf gott að skoða í kringum sig og fá tilfinningu fyrir því hvaða verð er sanngjarnt fyrir þá vöru sem þú ert að leita að. Sumir eru tilbúnir að borga hærra og aðrir minna fyrir ákveðna vöru,“ segir Sandra.

„Hjá okkur kom ekkert annað til greina en sitjandi þriggja rétta kvöldverður með öllu tilheyrandi. Ég valdi að hafa ostaborð með fordrykknum og pizzu á miðnætti, já og svo má ekki gleyma nammibarnum fyrir nammigrísina. Ég hef aldrei séð fólk jafn ánægt og hissa þegar pizzusendillinn mætti á svæðið. Ég veit að það voru einhverjir sem voru á leiðinni heim sem snéru aftur inn.“

Salurinn var með sviði sem hafði sína kosti.
Salurinn var með sviði sem hafði sína kosti. Ljósmynd/Hildur Erla

Pantaði þrjá brúðarkjóla

„Eftir að allt planið var klárt fyrir gestina áttaði ég mig á því að ég gleymdi sjálfri mér. Ég til dæmis fékk rétta kjólinn í hendur klukkan hálf eitt á brúðkaupsdaginn, en athöfnin hófst klukkan 15:30. Fyrst lét ég semsagt sauma á mig æðislegan kjól en fannst sniðið ekki fara mér. Þá keypti ég annan kjól á netinu sem mér fannst fínn en efnið var ekki nógu gott. Ég þurfti þess vegna að panta þriðja kjólinn og til þess að hann yrði fullkominn lét ég þrengja hann og gera klauf. Sama dag og brúðkaupið fór fram kom síðan vinkona mín með kjólinn á harðahlaupum frá saumakonunni og mátti ekki tæpara standa þar sem ég hafði ekki einu sinni mátað hann,“ segir Sandra en þess má geta að kjóllinn smellpassaði sem betur fer. 

Sandra fékk hinn fullkomna brúðarkjól tilbúinn á brúðkaupsdaginn sjálfan.
Sandra fékk hinn fullkomna brúðarkjól tilbúinn á brúðkaupsdaginn sjálfan. Ljósmynd/Hildur Erla
Sandra lét meðal annars gera klauf á kjólinn.
Sandra lét meðal annars gera klauf á kjólinn. Ljósmynd/Hildur Erla

Hugsaði fyrst og fremst um gestina

Sandra og Arnór lögðu mikla áherslu á upplifun gestanna. Það tókst vel til og hafa margir hrósað brúðhjónunum fyrir veisluna. „Ég segi; reyndu að pæla í hver hópurinn þinn er, hvernig getur þú sinnt þeim og leyft þeim að njóta sem best? Margir gestanna okkar voru að koma langt að og það mátti ekkert klikka. Ég vildi til dæmis ekki hafa röð á barinn. Ég var með kæli fyrir framan hann þar sem hægt var að sækja sér gos og bjór. Svo var ég með kokkteila á dælu og Espresso Martini sem var tilbúinn og allir fengu eitt glas með eftirréttinum. Ég reyndi fyrirbyggja raðir, bið og svengd gestanna. Draumurinn var, þegar ég planaði brúðkaupið, að allir væri saddir og sælir og að þeir nytu sín og væru í geggjuðum gír. Ef fólki líður vel þá er auðveldar að ná því í gegn sem tókst heldur betur.“

Náðu þið að njóta veislunnar?

„Já, það kom mér á óvart hvað við náðum að njóta. Ég er í grunninn manneskja sem plana og passa að allt sé í lagi og svona frekar ofvirk og vakandi með svona hluti. Við vorum sjálf sultuslök og gátum notið og verið í góðum gír með gestunum. Sennilega var það góðri skipulagninu að þakka og það er alltaf grunnurinn.“

Var eitthvað sem þú hefðir viljað gera öðruvísi?

„Já við gleymdum að taka myndir með foreldrum og systkinum. Það var smá klikk, mæli með að gera ráð fyrir því í planinu,“ segir Sandra brosandi og hlær.

Brúðhjónin lögðu mikla áhersla á upplifun gestanna. Þau skemmtu sér …
Brúðhjónin lögðu mikla áhersla á upplifun gestanna. Þau skemmtu sér líka vel. Ljósmynd/Hildur Erla

Fóru til Mexíkó í brúðkaupsferð

Sandra og Arnór ákváðu að skella sér í brúðkaupsferð nokkrum dögum seinna. Þau langaði  að fara í sól og koma ekki margir staðir til greina í janúar. Lendingin var að fara til Mexíkó sem þau sjá alls ekki eftir. „Við höfum farið í heimsreisu til Asíu og ferðast mikið saman um allan heiminn en áttum eftir þennan heimshluta. Við vorum á eyjunni Isla Mujeres í Mexíkó sem var æðislegt og bara allt sem við óskuðum okkur,“ segir Sandra. 

Á meðan á brúðkaupsferðinni stóð fengu þau myndbandið og myndirnar úr myndavélunum af borðunum sendar og þannig endurupplifðu þau öll herlegheitin aftur. „Það var frábær tilfinning að skoða allt efnið og sjá gleðina og stemninguna sem ríkti í veislunni og okkur hlýnaði um hjartarætur við það,“ segir Sandra.

Hjónin með ánægðum brúðksgestum.
Hjónin með ánægðum brúðksgestum.
mbl.is