Fékk morðhótanir eftir að hafa lagt til að Keikó verði aflífaður

Keikó unir sér vel í Skálavíkurfirði og er sagður betla …
Keikó unir sér vel í Skálavíkurfirði og er sagður betla mat af fólki sem kemur til að virða hann fyrir sér. AP

Norski líffræðingurinn Nils Øien hefur fengið morðhótanir eftir að hann lýsti þeirri skoðun sinni í gær að réttast væri að aflífa háhyrninginn Keiko sem nú dvelur í Skálavíkurfirði í Noregi. Segir norska blaðið Aftenposten að gífurleg viðbrögð hafi orðið við þessum ummælum Øiens, þó einkum í Bandaríkjunum.

Aftenposten vitnar í tölvupóst, sem netútgáfu blaðsins barst í gær frá Bandaríkjamanni sem nefnir sig Hansen. Þar segir að standi Øien við hótanir sínar um að aflífa Keikó þurfi hann að gæta sín á reiði bandarískra ríkisborgara um allan heim. „Drepi Norðmaður Keikó myndi það setja samband Bandaríkjanna og Noregs í uppnám. Fræðimaðurinn Nils Øien verður að fela sig það sem eftir er ævinnar því allur heimurinn mun vilja hann og fjölkyldu hans feig. Þessi saga er svo merkileg að önnur eins gerist ekki á okkar tíma, og það að leggja til að aflífa Keikó nægir til að hefja stríð við þá Norðmenn sem styðja slíkt," segir Aftenposten að staðið hafi í tölvubréfinu.

Øien segir við Aftenposten að nokkrir hafi haft samband við sig beint og hótað sér. Hann segir að hann hafi gert ráð fyrir því að ummæli hans vektu viðbrögð, slíkt gerist oft þegar fjallað sé um hvali, og í þessu tilfelli eigi í hlut eitt af helstu táknum Vesturlanda.

Øien hefur þó heldur dregið úr ummælum sínum frá í gær. Í dag segir hann við Aftenposten að hann voni að málið leysist farsællega og þeir sem beri ábyrgð á því að veiða Keikó á ný verði að axla þá ábyrgð. „Koss, klapp og fata full af síld er það eina sem háhyrningurinn Keikó vill. Og það besta sem gæti gerst er að hann verði fluttur aftur í sædýrasafnið þar sem honum líður best," segir Øien.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert