Dauði Schiavo veldur miklum deilum í Bandaríkjunum

Terri Schiavo skaddaðist á heila í slysi sem hún varð …
Terri Schiavo skaddaðist á heila í slysi sem hún varð fyrir árið 1990. AP

Miklar stjórnmáladeilur hafa brotist út í Bandaríkjunum eftir dauða Terri Schiavo, sem var heilasködduð og ófær um að nærast á eðlilegan hátt. Schiavo lést í gær, 13 dögum eftir að hún hætti að fá næringu og vökva í æð að ósk eiginmanns hennar sem hafði forræði yfir henni.

Tom DeLay, talsmaður repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, gagnrýndi bandaríska dómstóla harðlega fyrir að láta Schiavo deyja og sagði þá „stjórnlausa,“ að því er BBC greinir frá.

DeLay lofaði áframhaldandi stuðningi við Bob og Mary Schindler, foreldra Schiavo, sem börðust fyrir því að dóttur þeirra yrði haldið á lífi.

Foreldrar Schiavo lýstu sig ósammála niðurstöðum lækna, sem dómstólar leituðu álits hjá, en þeir sögðu engar batahorfur hjá Schiavo.

„Við lofuðum Schindler fjölskyldunni að við myndum ekki láta Terri deyja til einskis,“ sagði DeLay. „Við munum skoða nánar hina hrokafullu, stjórnlausu og óábyrgu dómstóla sem gáfu þinginu og forsetanum langt nef,“ bætti hann við.

mbl.is