Sky sjónvarpsstöðin segir að allt að 45 manns kunni að hafa látið lífið

Lögreglumaður stendur vörð við Eversholt Street í Lundúnum en í …
Lögreglumaður stendur vörð við Eversholt Street í Lundúnum en í baksýn sést flak strætisvagns sem sprakk í morgun. AP

Sky sjónvarpsstöðin segir, að allt að 45 manns kunni að hafa látið lífið í sprengingunum í Lundúnum í morgun og allt að 1000 manns hafi særst. Segir sjónvarpsstöðin, að þessar tölur séu fengnar eftir áreiðanlegum heimildum og hugsanlega kunni þær að hækka. Enn er verið að reyna að bjarga fólki úr flökum lestarvagna eftir sprengingarnar.

Fréttastofan AP hefur einnig eftir bandarískum embættismanni, að yfir 40 manns hafi látið lífið í sprengingunum. Breskir embættismenn hafa ekki gefið yfirlýsingar um tölu látinna en bandarískir embættismenn, sem starfa í löggæslustofnunum, hafa fengið upplýsingar frá starfsbræðrum sínum í Bretlandi.

Svo virðist sem sjö manns hafi látið lífið þegar sprengja sprakk í strætisvagni á Tavistock Square. Þar sprakk sprengja aftast á efri hæð strætisvagnsins. Vangaveltur hafa verið um að þar hafi verið um að ræða sjálfsmorðsárás en lögreglan í Lundúnum hefur ekki viljað tjá sig um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert