Íbúar Rómar telja að þeir séu skotmark

Lögreglumaður á Colosseum neðarjarðarlestarstöðinni í miðborg Rómar.
Lögreglumaður á Colosseum neðarjarðarlestarstöðinni í miðborg Rómar. AP

Stjórn Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur aukið öryggiseftirlit í landinu eftir árásirnar í Lundúnum í gær en íbúar í Róm virðast ekki ætla að láta hryðjuverkaógnina verða til þess að þeir breyti lífsháttum sínum. Bersluconi sagði að Ítalir væru skotmark og íbúar í Róm hafa einnig talið að svo sé alveg síðan 3.000 hermenn voru sendir til að taka þátt í innrás Bandaríkjamanna í Írak.

„Öryggisviðbúnaðarstig hefur verið hækkað á Ítalíu eins og í öllum löndum Evrópu,“ sagði Giuseppe Pisanu innanríkisráðherra fyrir neyðarfund hersins, lögreglunnar og leyniþjónustunnar í dag.

Fólkið á götum úti virðist hins vegar ekki ætla að láta hryðjuverkaógnina hafa áhrif á hið daglega líf sitt. „Málið er að þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær og hvar, það verður gerð árás á Ítalíu svipuð þeim sem gerðar voru á Madríd og London,“ sagði Nicolo, lögfræðingur frá Mílanó sem var í Róm í viðskiptaerindum.

Hann sagði að kosningar á næsta ári yrðu áhættutími „því hryðjuverkamennirnir gera aldrei árás af tilviljun, eins og við sáum í Madrid og London.“

Gerðar voru árásir á Madríd í 11. mars í fyrra einungis nokkrum dögum fyrir kosningar. Stjórn íhaldsmannsins Jose Maria Aznar var komið frá í kosningunum sem fylgdu á eftir, en fyrir árásirnar var talið nær öruggt að hann myndi sigra. Hann, eins og Bersluconi, var náinn bandamaður Bandaríkjamanna í Írak og hafði sent spænska hermenn þangað. Sósíalistaflokkur Jose Luis Rodriguez Zapatero, sem var harður andstæðingur stríðsins í Írak, komst til valda og kallaði hermenn sína heim.

Fólk á aðallestarstöð Rómar virtist haga sér alveg eins og venjulega þrátt fyrir að fyrirsögnin á forsíðu eins helsta dagblaðs borgarinnar Messaggero væri: „Fjöldamorð í London, hættuástand á Ítalíu.“

„Ég verð að fara í vinnuna, ég get ekki hætt því,“ sagði Chiara afgreiðslukona í verslun. „Hættan hefur verið hérna á hverjum einasta degi síðustu árin.“

Og þrátt fyrir að stjórnvöld segist hafa aukið viðbúnað sagðist Marco, sem aðstoðar farþegar á lestarstöðinni, ekki sjá neinn mun. „En það hljóta þá auðvitað að vera margir lögreglumenn í borgaralegum klæðum á meðal farþeganna.“

Spenna í loftinu

„Augljóslega er ákveðin spenna í loftinu, en maður verður að láta eins og ekkert hafi gerst,“ sagði Giuseppe, búðareigandi á lestarstöðinni.

Lorenzo Pisani, 24 ára, sem vinnur sem aðstoðarmaður í þinginu, taldi sig öruggan inni í borginni en ekki á lestarstöðinni. „Ég vinn inni í miðborginni og það er mjög öruggt. Ef eitthvað gerist hér þá sé ég ekki hvernig við ættum að sleppa. En hvað getum við hins vegar gert? Ég verð að taka lestina í vinnuna og ég ætla ekki að hætta að lifa mínu lífi af því að það er hryðjuverkaógn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert