Meira en 50 látnir eftir árásirnar

Maður setur blóm á girðingu við Kings Cross lestarstöðina í …
Maður setur blóm á girðingu við Kings Cross lestarstöðina í dag. AP

Meira en 50 manns eru látnir eftir fjórar sprengjuárásir í Lundúnum í gær, að því er yfirmaður lögreglu borgarinnar sagði í dag.

Sir Ian Blair lögreglustjóri sagði að verið væri að vinna að því að afla nákvæmra tala. „Við höfum ekkert í höndunum sem bendir til þess að þetta hafi verið sjálfsmorðssprengjuárás en heldur ekkert sem útilokar það,“ sagði Blair á fréttamannafundi.

Svo virðist sem minna en 4,5 kíló af sprengiefni hafi verið í sprengjunum.

„Við teljum að sprengjurnar í neðanjarðarlestinni hafi verið settar á gólfið í vögnunum,“ sagði Andy Hayman, aðstoðarlögreglustjóri.

Blair sagði að árásirnar „bæru öll merki“ al-Qaeda. Þá sagði hann að mögulegt væri að hryðjuverkasellan væri heil á húfi og enn virk og gæti gert fleiri árásir.

Lögregla neitaði því að ósprungin sprengja hefði fundist, eins og sagt var í gær. Það hefði verið sagt í upphafi vegna óvissu um fjölda sprengja. Lögregla hefur enn ekki farið að vagninum sem sprakk við Russell Square þar sem talið er að göngin séu hættuleg, að sögn Hayman. 21 létu lífð þar.

Blair staðfesti að lögregla hafi íhugað að slökkva á farsímakerfi borgarinnar þegar tilkynnt hafði verið um sprengingarnar, en hætt við það. „Við íhuguðum það. Við getum gert það,“ sagði Blair. En hann sagði að síðan hefðu menn leitt hugann að því hvaða áhrif það myndi hafa á hugarástand almennings og hætt við það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert