Óttast þriðju hryðjuverkaárásina í Lundúnum

Lögreglan í Bretlandi hefur haft mikin viðbúnað á lestarstöðvum í …
Lögreglan í Bretlandi hefur haft mikin viðbúnað á lestarstöðvum í Lundúnum síðan hryðjuverk voru framin í tvígang í borginni í síðasta mánuði. POOL

Heimildamenn breskra dagblaða hafa ítrekað greint frá því að hætta sé á að hryðjuverkamenn ætli að láta til skarar skríða í þriðja sinn í Lundúnum. Breska lögreglan hefur mikinn viðbúnað vegna þessa. Þúsundir lögregluþjóna ganga um götur borgarinnar og eru á varðbergi á lestarstöðvum í borginni. Samkvæmt heimildamönnum dagblaðsins The Times eru ódæðismennirnir Bretar af pakistönsku bergi brotnir. Hafi þeir ætlað að fremja hryðjuverk í lestarkerfi Lundúna í síðustu viku en hætt við á síðustu stundu.

Dagblaðið hefur eftir heimildamönnum sínum, að mennirnir hafi verið í tengslum við ódæðismennina frá Leeds, sem sprengdu fjórar sprengjur í Lundúnum 7. júlí síðastliðin.

Talsmaður lögreglunnar í Lundúnum telur hins vegar víst að allur orðrómur um meintan þriðja hóp hryðjuverkamanna sé uppspuni dagblaða. „Við getum ekki ábyrgst að þriðja hryðjuverkið verði ekki framið en höfum aldrei heyrt minnst á þriðja hópinn,“ sagði talsmaðurinn og benti á að lögreglan verði á varðbergi.

Yfirvöld á Ítalíu eru sögð íhuga hvort þau ætli að framselja einn fjórmenninganna sem handtekinn var í landinu og er ábyrgur fyrir að standa að baki tilraun til hryðjuverka í Lundúnum 21. júlí síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert