Ítalskur dómari og breskir lögreglumenn yfirheyra grunaðan hryðjuverkamann

Hamdi Issac, eða Osman Hussain, sem er í haldi ítalskra …
Hamdi Issac, eða Osman Hussain, sem er í haldi ítalskra yfirvalda. AP

Ítalskur dómari og breskir lögreglumenn hófu í dag að yfirheyra mann sem er grunaður um að vera einn þeirra sem gerðu tilraunir til hryðjuverka í Lundúnum 21. júlí síðastliðinn. Ítalska fréttastofan ANSA hefur greint frá þessu.

Maðurinn, Hamdi Issac, er 27 ára gamall Breti af eþíópískum uppruna. Hann er sagður hafa verið einn þeirra manna sem komu fyrir sprengjum í samgöngukerfi Lundúnaborgar 21. júlí síðastliðinn.

Tilræðin tókust ekki og Issac var handtekinn á Ítalíu í 29. júlí, nokkrum dögum eftir að hann flúði frá Bretlandi. Hann hefur verið ákærður fyrir þátttöku í „alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi“ og fyrir að hafa framvísað fölsuðum skilríkjum.

Yfirheyrslur yfir Issac fara fram í Coeli fangelsinu í Róm en þær hófust skömmu eftir að Domenico Miceli, dómari í Róm, kom þangað klukkan 9.30 í morgun að ítölskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert