Myrti 12 ára gamlan son sinn

Rúmlega fertugur maður var handtekinn í Byåsen hverfinu í Þrándheimi í kvöld fyrir að myrða 12 ára gamlan son sinn. Yngri bróðir hins myrta kom að bróður sínum liggjandi í blóði sínu á gólfinu á heimili þeirra.

Eftir því sem nágrannar fjölskyldunnar sögðu í viðtali við TV2 í Noregi hafa verið tíð læti á heimilinu þar sem faðir drengjanna ekki sætti sig við að eldri sonurinn tileinkaði siði heimamanna en fjölskyldan er af asískum uppruna. Drengirnir fengu t.d. ekki leyfi til að leika sér í fótbolta með skólabræðrum sínum eftir því sem felmtri slegnir nágrannar sögðu við fréttamenn.

Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem foreldri myrðir barn sitt í Byåsen hverfinu í Þrándheimi. Í lok maí myrti kona tvær dætur sínar og framdi sjálfsvíg á eftir með því að bera eld að heimili þeirra.

Með morðinu á drengnum í kvöld hafa 19 börn í Noregi verið drepin af foreldrum sínum frá árinu 2001.

mbl.is

Bloggað um fréttina