Deilt um föstu barna í Danmörku

Deilur standa nú um það í Óðinsvéum í Danmörku hvort rétt sé að skólar taki afstöðu til þess hvort nemendur þeirra fasti eða ekki. Alex Ahrendtsen, aðstoðarborgarstjóri lýsti því yfir á mánudag að hann væri ósáttur við að skólar hafi heimilað nemendum að fasta á Ramadan, föstumánuði múslíma. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Jane Jegind, talsmaður skólamálayfirvalda í borginni staðfestir, að málið sé til umræðu. „Skólayfirvöld hafa verið beðin um að hafa samband við skólastjórnendur, þar sem slíkt hefur þróast, og koma þeim skilaboðum áleiðis til þeirra að við teljum mikilvægt að þeir komi þeim skilaboðum áleiðis til foreldra að stjórnmálamenn geti ekki stutt slíkt.”

Hún segir borgaryfirvöld þó ekki vilja láta ákvörðunarvald í málinu í hendur einstakra skólastjórnenda. „Þetta snýst ekki bara um skólapólitík, þetta hefur einnig með heilbrigðismál að gera og það að hér er um að ræða börn sem eru að vaxa og eiga að vera í sem bestu ástandi til að læra. Hvernig sem á það er litið þá geta börn ekki lært, fremur en fullorðnir, fái þau ekki fæðu."

Olav Nielsen, skólastjóri Humlehaveskólans, segir skólastjórnendum hins vegar ómögulegt að neyða börn til að matast. Þá segist hann ekki hafa tekið beina afstöðu til málsins til þessa en hátt hlutfall nemenda skólans eru múslímar. „Ég get annars vegar tekið undir það með stjórnmálamönnum og næringarfræðingum að börn sem eru að vaxa þurfa að borða,” segir hann. „Á hinn bóginn þarf að virða trúarskoðanir foreldranna og það sem þær hafa í för með sér. Þegar allt kemur til alls er það jú ábyrgð foreldra að fæða börn sín.”

Þá segir hann það reynslu sína að foreldrar taki því yfirleit vel sé þeim bent á að börn þeirra sýni merki orku- og einbeitingarleysis, sem talið er tengjast föstu þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina