Maður hálshöggvinn í Sádi-Arabíu

Dauðarefsingum í Sádi-Arabíu mótmælt í Bangladess. Myndin tengist efni fréttarinnar …
Dauðarefsingum í Sádi-Arabíu mótmælt í Bangladess. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Reuters

Maður sem dæmdur var fyrir morð á lögreglumanni var tekinn af lífi í Sádi-Arabíu í dag að sögn innanríkisráðuneytis landsins. Var maðurinn hálshöggvinn. Með aftökunni hefur nú að minnsta kosti 71 varið tekinn af lífi í landinu það sem af er ári.

Í tilkynningu ráðuneytisins kom fram að maðurinn hefði einnig sært nokkra aðra lögreglumenn með hríðskotabyssu.

Mannréttindasamtökin Amnesty International kröfðust þess af stjórnvöldum í Sádi-Arabíu í september að þau frestuðu umsvifalaust öllum dauðarefsingum en 140 manns bíða þess að verða teknir af lífi þar.

Dauðarefsing liggur við nauðgunum, morðum, trúskiptum, vopnuðum ránum og fíkniefnasmygli samkvæmt sjaríalögum sem ríkja í landinu. Heldur Amnesty því fram að 27 fangar hafi verið teknir af lífi í Sádi-Arabíu í fyrra en 67 árið áður.

mbl.is