Fundu 13 lík með hendur bundnar fyrir aftan bak

Þúsundir hafa fallið í átökunum í Sýrlandi.
Þúsundir hafa fallið í átökunum í Sýrlandi. AFP

Eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa rannsakað 13 lík sem fundust í  al-Sukar, austan við borgina Deir al-Zour í Sýrlandi. Líkin voru með hendur bundnar fyrir aftan bak og flest bendir til að mennirnir hafi verið skotnir af stuttu færi.

Norðmaðurinn Robert Mood, sem starfar á vegum Sameinuðu þjóðanna, sagði í samtali við BBC, að morðin á þessum mönnum væri skelfilegur atburður og að hann fordæmdi þennan verknað harðlega.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna lýsti því yfir í dag að það vonaði að fjöldamorðin í Houla yrðu til þess að breyta afstöðu Rússa, en þeir hafa fram að þessu staðið gegn alþjóðlegum afskiptum af Sýrlandi. Utanríkisráðherra Rússa sagði í dag að Rússland væri á móti hernaðaraðgerðum í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert