Hvað gerist ef Bandaríkin borga ekki?

Mikill fjárlagahalli hefur verið í forsetatíð Barack Obama, en hann …
Mikill fjárlagahalli hefur verið í forsetatíð Barack Obama, en hann tók við stuttu eftir að fjármálakreppa skall á í Bandaríkjunum. SAUL LOEB

Ef forystumenn repúblikana og demókrata ná ekki samkomulagi fyrir miðnætti blasir greiðslufall við ríkissjóði Bandaríkjanna. Enginn veit fyrir víst hverjar verða afleiðingarnar. Þó má ætla að þetta leiði til verðfalls á hlutabréfum um allan heim og vaxtahækkunar í kjölfarið.

Það hefur raunverulega aldrei gerst í sögu Bandaríkjanna að ríkið hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Það eru þó þrjú dæmi sem komast nálægt því. Árið 1979 urðu tæknileg mistök til þess að ríkissjóður greiddi ekki 122 milljón dollara greiðslu á réttum tíma. Á árunum 1933 og 1790 myndaðist ástand í Bandaríkjunum sem líkja má við ástandið í Grikklandi.

Lækkun hlutabréfaverðs

Hvað gerist ef ekki næst samkomulag milli flokkanna og það verður greiðslufall hjá ríkissjóði Bandaríkjanna? Enginn veit í reynd hvað gerist, en hægt er að velta fyrir sér líklegum afleiðingum. Fyrsta og augljósa afleiðingin er verðfall á hlutabréfamörkuðum um allan heim.

Greiðslufall er líka líklegt til að hækka vexti í heiminum. Ástæðan er sú að þegar bandaríska ríkið getur ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart eigendum skuldabréfa falla bréfin í verði. Það hefur áhrif á skuldatryggingarálag. Traust fjárfesta minnkar og þeir verða ekki tilbúnir til að lána peninga nema gegn hærri vöxtum. Vaxtahækkun í Bandaríkjunum er líkleg til að hafa áhrif um allan heim.

Getur ríkið forgangsraðað greiðslum?

Jack Lew, fjármálaráðherra Bandaríkin, hefur sagt að greiðslufall ríkissjóðs hafi ekki aðeins áhrif á getu ríkisins til að greiða vexti og af skuldum til lánadrottna. Greiðslufall hafi líka áhrif á getu ríkisins til að greiða tryggingabætur, laun til fyrrverandi hermanna o.s.frv.

Ríkissjóður á nægt lausafé út október og getur því staðið í skilum þó lögum hafi ekki verið breytt fyrir miðnætti. Samkvæmt skýrslu óháðrar stofnunar getur ríkissjóður Bandaríkjanna staðið við 68% skuldbindinga sem falla til í nóvembermánuði án þess að skuldaþakið verði hækkað. Við þær aðstæður vaknar sú spurning hvort ríkissjóður verði ekki að forgangsraða greiðslum. BBC vitnar í skýrslu frá lagaprófessor í Columbia þar sem því er haldið fram að forgangsröðun greiðslna feli í sér lögbrot.

Bandarísk skuldabréf hafa verið álitnir öruggir pappírar

Það hefur verið viðvarandi halli á ríkissjóði Bandaríkjanna í meira en 10 ár. Þessi halli er fjármagnaður með peningum frá löndum eins og Kína, Japan og Þýskalandi. Fram að þessu hafa ríkisskuldabréf í Bandaríkjunum verið álitnir öruggustu pappírar í heimi. Ljóst er að ef þeir sem fjármagna hallann í Bandaríkjunum telja sig þurfa að óttast um peningana hefur það áhrif á hvert þeir beina peingum sínum í framtíðinni.

Lánshæfismat Bandaríkjanna er AAA. Ef kemur til greiðslufalls er hætt við að þetta mat lækki. Matsfyrirtækið Fitch varaði raunar við því í gærkvöldi.

Ríkisstofnanir voru lokaðar í 21 dag árið 1995

Um síðustu mánaðamót lauk fjárlagaárinu í Bandaríkjunum og þar sem flokkarnir náðu ekki samkomulagi um fjárlagaheimildir næsta árs lokuðu nokkrar ríkisstofnanir. Þetta á m.a. við um söfn og þjóðgarða og starfsemi nokkurra opinberra stofnana er í hægagangi.

Það hefur gerst 18 sinnum á síðustu 30 árum að loka hafi þurft ríkisstofnunum tímabundið vegna þess að ekki er fjárheimild fyrir rekstri þeirra. Lengsta lokunin var 1995 þegar þær voru lokaðar í 21 dag. Það var í forsetatíð Bill Clinton.

Voru nálægt samkomulagi

Mörgum þykir með ólíkindum að stjórnmálamenn í Bandaríkjunum tefli svo djarft að það sé orðið klukkutímaspursmál hvort ríkissjóður fari í greiðslufall. Það er stefna Barack Obama í heilbrigðismálum (Obamacare) sem allt snýst um. Mikil andstaða er við Obamacare í Repúblikanaflokknum og skiptar skoðanir eru meðal almennings á löggjöfinni.

Viðræður forystumanna flokkanna um að leysa málin virtust í góðum farvegi í lok síðustu viku. Viðræðurnar sigldu hins vegar í strand þegar Repúblikanar í fulltrúadeildinni lýstu því yfir að þeir ætluðu að leggja fram eigin tillögur. Tillögurnar fólu í sér minniháttar breytingar á Obamacare gegn því að skuldaþakinu yrði lyft. Þegar á reyndi kom í ljós að ekki var meirihluti innan flokksins við þessum tillögum. Talsmenn tillagnanna drógu þá í land, en skyldu eftir eina einfalda tillögu um að starfsmenn þingsins gætu ekki fengið niðurgreiðslur á heilbrigðisþjónustu. Þessa tillögu er ekki að finna í frumvarpi öldungadeildarinnar, en það frumvarp þarf að fást samþykkt í báðum deildum til að öðlast gildi.

Forystumenn beggja flokka unnu í alla nótt að því að ná samkomulagi. Þeir segjast bjartsýnir á að samkomulag takist. Samkomulagsdrögin fela í sér að hækka skuldaþak ríkissjóðs til 7. febrúar og að ríkisstofnanir fái fjárheimildir til þriggja mánaða. Tíminn er hins vegar orðinn mjög skammur.

John Boehner í þröngri stöðu

John Boehner, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, er í þröngri stöðu. Þrýst er fast á hann af fjármálalífinu að semja við Obama. Margir þingmenn flokksins eru líka óánægðir með hvernig flokkurinn hefur spilað úr stöðunni og óttast að deilan skemmi fyrir flokknum í næstu kosningum. Innan flokksins eru hins vegar líka þingmenn sem telja ekki koma til greina að gefa eftir.

Þetta eru ekki síst fulltrúar Teboðshreyfingarinnar Repúblikanaflokksins. Þeir þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af óflokksbundnum kjósendum á miðjunni vegna þess að atkvæði þessa kjósendahóps hafa ekki jafnmikið vægi í kosningum til fulltrúadeildarinnar og til öldungadeildarinnar. Þetta hefur meðal annars verið rakið til fyrirbæris sem kallað hefur verið „gerrymandering“ á ensku. Það felst í því að annar stóru flokkanna notfærir sér völd sín í tilteknu ríki til að breyta mörkum einmenningskjördæmanna í fulltrúadeildarkosningum til að tryggja flokknum eins mörg þingsæti og mögulegt er. Markmiðið er jafnframt að sjá til þess að sem flest atkvæði hins flokksins falli dauð niður.

Þessi aðferð getur haft mikil áhrif á niðurstöður kosninga til fulltrúadeildarinnar þar sem 435 þingsæti skiptast á milli ríkja eftir íbúafjölda þeirra. Í öldungadeildinni sitja hins vegar tveir þingmenn frá hverju ríki.

Þessar breytingar á mörkum kjördæmanna skýra að miklu leyti hvers vegna repúblikanar fengu 33 þingsæti umfram demókrata í síðustu fulltrúadeildarkosningum þótt demókratar fengju fleiri atkvæði. Munurinn var 1,4 milljónir atkvæða.

John Boehner, leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni, er í lykilstöðu í …
John Boehner, leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni, er í lykilstöðu í fjárlagadeilunni. Hans flokkur er í meirihluta í fulltrúadeildinni, en skiptar skoðanir eru innan hans um hversu langt eigi að ganga í kröfum gegn Obama. MARK WILSON
Steny Hoyer og Nancy Pelosi, forystumenn Demókrata í fulltrúadeildinni, koma …
Steny Hoyer og Nancy Pelosi, forystumenn Demókrata í fulltrúadeildinni, koma af fundi með forsetanum. BRENDAN SMIALOWSKI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert