Nasistaforingi hvílir innan um gyðinga

Minnismerki um helförina í Berlín í Þýskalandi
Minnismerki um helförina í Berlín í Þýskalandi Mynd/AFP

Lengi hefur verið óvíst hvernig Heinrich Mueller foringi Gestapo, endaði ævi sína. Þýska dagblaðið Bild segist nú vera með upplýsingar sem benda til þess að hann hafi ekki lifað stríðið af, og að hann sé grafinn í grafreit gyðinga í miðborg Berlínar. 

Í 68 ár hafa margir haldið því fram að Mueller hafi lifað stríðið af og komist undan óvinasveitum. Samkvæmt einni lögregluskýrslu á hann að hafa verið í felum í Tékkóslóvakíu árið 1949. Hið rétta sé hins vegar að lík hans hafi fundist í ágúst 1945 og hafi verið grafið stuttu síðar. 

Dieter Graumann, talsmaður gyðinga í Þýskalandi bregst illa við þessum fréttum. „Það að einn miskunnarlausasti nasistinn úr stríðinu sé grafinn í grafreit fyrir gyðinga er ekkert annað en skelfilega ósmekklegt. Það er verið að fara illa með minningu þeirra sem létust af völdum nasistanna,“ segir Graumann við Bild.

Mueller er einn af þeim nasistum sem funduðu árið 1942 um hina „endanlegu lausn“ sem átti að fela í sér útrýmingu á öllum gyðingum í Evrópu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert