Helvíti á jörð

Divine Word sjúkrahúsið í borginni Tacloban á Filippseyjum minnir helst á helvíti á jörð. Úrvinda starfsfólk reynir að veita sjúklingum aðstoð, sjúklingum sem sumir hverjir glíma við skelfileg sár. Það er ekkert rafmagn að fá og hluti af þaki hússins er hruninn.

Jennifer Purga stendur við sjúkrabeð eiginmannsins og reynir að  dæla lofti í lungu hans en óvíst er hvort hann lifir af á sjúkrahúsi þar sem starfsemin er undir berum himni , ekkert vatn - ekkert rafmagn.

Borgin Tacloban varð skelfilega úti í fellibylnum fyrir viku síðan og er Divine sjúkrahúsið þar engin undantekning. En þrátt fyrir rafmagnsleysið er Divine Word eina sjúkrahúsið sem er starfshæft í borginni sem hýsir 220 þúsund íbúa. Borg sem varð eyðileggingunni að bráð í fellibyl sem engu eirði sem á vegi hans varð.

„Við misstum níu sjúklinga þegar fellibylurinn reið yfir vegna þess að þegar rafmagnið fór af þá slokknaði á öndunarvélunum,“ segir Valentina Gamba, hjúkrunarforstjóri. Tækjabúnaður sjúkrahússið er einnig laskaður eftir fellibylinn, hvorki sónartæki né röntgentæki virka. Bráðamóttaka og rannsóknastofur eru rústir einar.

Þurfa að taka ákvarðanir sem enginn vill þurfa að taka

Að sögn Gamba hafa starfsmenn þurft að taka ákvarðanir sem enginn vill þurfa að taka, að velja og hafa hvað varðar líf og dauða sjúklinga. Hverjum eigi að sinna og hverjum ekki þar sem þeir eigi ekki möguleika. Að minnsta kosti ekki jafn mikla og aðrir.

„Það var komið með einn sjúkling til okkar sem við hefðu getað bjargað ef við hefðum haft tækjakost til þess en við létum hann fara þar sem við gátum ekki gert neitt,“ segir hún. „Það var algjör ringulreið. Í alvöru þetta var algjör upplausn,“ bætir hún við.

Eiginmaður Purga varð undir kókoshnetupálma í fellibylnum og gat hann sig hvergi hrært. Eftir sólarhring tókst að ná honum undan trjánum og var hann fluttur á sjúkrahús þar sem ekkert var hægt að gera fyrir hann. Þar lá hann í fimm sólarhringa þar til hann var á fimmtudag fluttur á Divine Word þar sem annar fótleggur hans var tekinn af. En á þeim tíma var hann kominn með blóðeitrun og er ólíklegt að að hann lifi af þar sem sýkingin nær til alls líkama hans. Enga aðstoð er að fá frá starfsfólki sjúkrahússins og því getur hún ekki vikið frá sjúkrabeði hans því hún þarf að dæla lofti í lungu hans. Ef hún fer á klósettið eða víkur frá til þess að nærast þá deyr hann.

En Purnga er ekki sá eini sem þarf að gangast undir aflimun, þrír sjúklingar bíða á ganginum á Divine Word eftir því að komast í aðgerð.

Í rúminu á móti eiginmanni Purga reyna hjúkrunarfræðingar að róa unglingsstúlku sem er komin að fæðingu og ljóst að hún þarf að fara í keisaraskurð. Starfsfólkið á sjúkrahúsinu gefst ekki upp og heldur baráttunni áfram og ljóst að þar skiptir engu hvar viðkomandi starfar venjulega. Læknar, lyfjafræðingar, starfsfólk í afgreiðslu og öryggisverðir, allir leggja sig fram um að reyna að bjarga mannslífum.

Jennifer Purga stendur við sjúkrabeð eiginmannsins og reynir að dæla …
Jennifer Purga stendur við sjúkrabeð eiginmannsins og reynir að dæla lofti í lungu hans AFP
Starfsfólk Divine sjúkrahússir háir harða baráttu við að bjarga mannslífum
Starfsfólk Divine sjúkrahússir háir harða baráttu við að bjarga mannslífum AFP
Beðið í anddyri Divine Word sjúkrahússins.
Beðið í anddyri Divine Word sjúkrahússins. AFP
Reynt að hreinsa til á sjúkrahúsinu þar sem ekkert rafmagn …
Reynt að hreinsa til á sjúkrahúsinu þar sem ekkert rafmagn er né heldur rennandi vatn AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert