Fjöldamorðingi tekinn af lífi

Joseph Paul Franklin
Joseph Paul Franklin

Fjöldamorðinginn Joseph Paul Franklin var tekinn af lífi áðan í fangelsinu í Bonne Terre í Missouri ríki í Bandaríkjunum. Er hann sá fyrsti sem er tekinn af lífi í ríkinu í tæp þrjú ár.

Mike O'Connell, sem stýrir refsisviði Missouri, segir að Franklin hafi verið úrskurðaður látinn klukkan 6:17 að staðartíma, klukkan 11:17 að íslenskum tíma.

Bandarískur áfrýjunardómstóll aflétti skömmu áður banni við því að taka Franklin af lífi. Seint í gærkvöldi úrskurðaði héraðsdómari í Missouri að fresta bæri aftökunni tímabundið vegna þess að hætta væri á að  lyfið, pentobarbital, sem nota á við aftökuna ylli ónauðsynlegum kvölum við andlátið. Slíkt væri brot á áttundu grein bandarísku stjórnarskrárinnar.

Franklin var dæmdur til dauða fyrir morð á gyðingi fyrir utan samkomuhús gyðinga árið 1977. Hann hefur einnig verið dæmdur fyrir átta morð til viðbótar en hann hefur sjálfur játað á sig um 20 morð á þriggja ára tímabili á áttunda áratug síðustu aldar. Hann hefur einnig játað á sig fjölmörg önnur brot en í flestum tilvikum beindust glæpir hans að fólki af öðrum kynþætti en þeim hvíta og gyðingum.

Bæði bandarískir og evrópskir lyfjaframleiðendur hafa hætt framleiðslu á ýmsum þeim lyfjum sem notuð eru við aftökur til þess að koma í veg fyrir að nöfn þeirra tengist aftökum, að því er segir í frétt á vef breska ríkisútvarpsins.

Vegna þessa hefur Missouri ríki, sem yfirleitt hefur notað þriggja lyfja blöndu við aftökur, skipt um lyf sem notuð eru við aftökur. Í raun hefur ríkið breytt um lyf í þrígang á jafn mörgum mánuðum.

Við aftökuna verður lyfið pentobarbital notað en það er af flokki barbiturate lyfja sem slæva miðtaugakerfið. Ekki er gefið upp hver framleiðir lyfið en það er notað af nokkrum ríkjum Bandaríkjanna við aftökur. Lyfið getur haft slævandi áhrif en í stórum skömmtum er það banvænt. Í gær kröfðust lögfræðingar Franklins þess að bann yrði lagt við notkun þess við aftökuna þar sem notkun þess bryti gegn stjórnarskránni en í henni er lagt bann við grimmilegum og óvenjulegum refsingum. Á það féllst héraðsdómari.

En nú hefur áfrýjunardómstóll snúið þessum úrskurði héraðsdómara við sem segir að ekki hafi verið lagðar fram nægjanlegar sannanir af hálfu lögmanna Franklins til þess að hætta við aftökuna.

Á Vísindavefnum kemur fram að snemma morguns þann 5. ágúst árið 1962 fannst bandaríska kvikmyndastjarnan Marylin Monroe látin á heimili sínu í Brentwood-hverfi í Los Angeles. Hún varð 36 ára gömul. Við hlið líksins fundust tómar flöskur af róandi lyfinu Nembutal (almennt heiti er pentóbarbítal; 5-etýl-5-(1-metýlbútýl)-barbítúrsýra). Dánarorsök var því talin vera of stór lyfjaskammtur. Krufning staðfesti að magn lyfsins í blóði hennar var margfalt yfir hættumörkum. Einnig mældist eitrað magn klóralhýdrats (e. chloral hydrate; 2,2,2-tríklór-1,1-etandíól), sem hefur meðal annars róandi áhrif. Nær öruggt er því að Marilyn hafi látist af of stórum skammti róandi lyfja.

Aftöku frestað á síðustu stundu

mbl.is