Táragasi beitt í Kænugarði

Rúmlega 100.000 tóku þátt í mótmælum sem fóru fram í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu í dag, en fólkið mótmælti ákvörðun úkraínskra stjórnvalda um að fresta samkomulagi um aðild landsins að Evrópusambandinu.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að mótmælin séu talin vera þau fjölmennustu í landinu frá árinu 2004 þegar appelsínugula byltingin stóð yfir. Þá fengu neituðu landsmenn að viðurkenna úrslit forsetakosninga vegna kosningasvindls. 

Lögreglumenn beittu táragasi er mótmælendur reyndu að komast í gegnum um girðingu sem var búið að reisa í kringum stjórnarbyggingar. 

Um 10.000 manns mættu á fjöldafund skammt frá þar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinn komu saman. 

Lögreglan í Kænugarði segist hafa orðið að skjóta táragasi á mótmælendur eftir að þeir síðarnefndu köstuðu reyksprengjum í áttina að lögreglumönnum, en lögreglan segir að mótmælendurnir hafi reynt að brjóta sér leið inn á ríkisstjórnarfund. 

Í síðustu viku ákváðu stjórnvöld að fresta ESB-samkomulaginu, en þau segja að landið hafi ekki efni á því að slíta tengslin við stjórnvöld í Rússlandi. Rússar reyna nú að fá Úkraínumenn til að mynda með sér tollabandalag.

Valdimír Pútín Rússlandsforseti sakar ESB um að hafa beitt Úkraínu fjárkúgun til að fá þarlend stjórnvöld til að undirrita samkomulagið á leiðtogafundi sem fer fram í Litháen í næstu viku.

Margir mættu með fjölskyldur sínar, þar á meðal börn, til mótmælanna í dag. Margir héldu á mótmælaspjöldum þar sem m.a. stóð: „Ég vil eiga heima í Evrópu“ og „Úkraína er hluti af Evrópu“.

mbl.is