Verður Amanda Knox framseld?

Knox er hún kom fram í viðtali í sjónvarpsþættinum Good …
Knox er hún kom fram í viðtali í sjónvarpsþættinum Good Morning America á föstudag. AFP

Bandarísk stjórnvöld gætu þurft að framselja Amöndu Knox til Ítalíu, verði farið fram á það, en hún var á fimmtudag sakfelld fyrir morðið á Meredith Kercher.

Alan Dershowitz, prófessor í lögfræði við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum, sagði í viðtali við CNN að hann teldi sig sjá vísbendingar um að ítölsk stjórnvöld myndu ekki fara fram á framsal.

Þetta byggir hann á því að Knox var leyft að fara aftur til Bandaríkjanna þegar málaferlin gegn henni voru hafin, en ítölsk stjórnvöld hefðu getað sagt sér að erfitt gæti reynst að ná henni aftur til Ítalíu. Því telur hann að ítölskum stjórnvöldum gæti þótt sakfellingin vera fullnægjandi refsing í sjálfu sér, þó svo að hún komi ekki til með að sitja dóminn af sér í ítölsku fangelsi.

Framsalssamningur á milli Bandaríkjanna og Ítalíu er þó í gildi og þyrftu bandarísk stjórnvöld að líkum að verða við framsalsbeiðni komi hún fram.

Talskona utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna hefur ekki viljað tjá sig um það hvort slík beiðni sé fram komin.

Dershowitz hefur þó einnig bent á að ef framsalsbeiðni verður lögð fram, og Knox kemur sér einhvern veginn undan því að fara til Ítalíu, myndi hún sitja föst í Bandaríkjunum, þar sem Interpol myndi í kjölfarið gefa út handtökuskipun á hendur henni. Yrði hún þá tafarlaust handtekin og send til Ítalíu myndi hún reyna að ferðast út fyrir Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert